Þessi fyrsta vika Febrúarflugna hefur heldur betur verið lífleg. Hnýtarar hafa sett inn 367 myndir af þeim flugum sem þeir eru að hnýta og það er ekki ofsögum sagt að margar flugur og hnýtarar hafa heldur betur vakið athygli. Facebook segir okkur að fyrstu vikuna hafi 7.000 skoðanir verið á Febrúarflugur og sífellt fleiri skrá sig í hópinn, sem telur nú rétt tæplega 1.700 meðlimi sem fylgjast með því sem hnýtarar bera á borð þetta árið.
Vildarvinir Febrúarflugna hafa brugðist vel við, gera vel við hnýtara með afsláttum eða uppákomum í febrúar og til skemmtunar og fróðleiks ber einna hæst á þessu í annari viku Febrúarflugna:
- Laugardaginn 8. febrúar ætlar Örn Hjálmarsson að taka á móti gestum í Flugubúllunni frá kl. 12 – 15 (nánari upplýsingar hér)
- Mánudaginn 10. febrúar verður opið hnýtingarkvöld á Akranesi þar sem Ívar Hauksson ætlar að vera gestum innan handar með góð ráð og leiðbeiningar (nánari upplýsingar hér).
- Mánudaginn 10. febrúar standa Veiðiflugur og Hylurinn fyrir opnu hnýtingarkvöldi í Veiðiflugum frá kl. 19:30 (nánari upplýsingar hér).
Vitaskuld hvetur FOS alla sem tök hafa á að nýta sér þessa viðburði, þeir eru öllum opnir án aðgangseyris. Fyrir þá sem ekki hafa tök á að fylgjast með Febrúarflugum á Facebook, þá má sjá allar þær flugur sem þegar hafa komið fram að þessu sinni, hér á FOS. Myndasafnið er uppfært reglulega með þeim meistaraverkum sem hnýtarar setja inn þetta árið.










Senda ábendingu