Flýtileiðir

Ein fyrir helgina – Grábrók

FOS fær oft orðsendingar frá lesendum; ábendingar um efni, veiðisögur eða eitthvað annað skemmtilegt sem vert er að skoða. Í sumar sem leið fékk FOS orðsendingu sem fól þetta allt í sér og tengdist flugu sem sendandinn, Tómas Auðunn Þórðarson, hafði sett saman og prófað í Hraunsfirðinum. Einföld og skemmtileg fluga sem gaf honum og konu hans 16 bleikjur á einum þessara dauðu daga sem stundum gera vart við sig í Hraunsfirðinum. Daganna þegar ekkert gengur og bleikjan fúlsar við öllu sem henni er boðið. Tvær þær stærstu sem féllu fyrir flugunni voru 50 og 54 cm að lengd. Síðar um sumarið gerði þessi fluga einnig gott mót í Hlíðarvatni í Selvogi og undirritaður getur vottað að bleikjurnar í Hlíðarvatni vestra (í Hnappadal) eru alveg jafn hrifnar af þessi flugu. Þar að auki voru urriðar Hnappadalsins álíka spenntir fyrir henni.

FOS lagðist vitaskuld í grúsk og leitaði og leitaði á netinu, fletti og fletti í bókum, en það virðist enginn hafa haft fyrir því að birta uppskrift eða gefa þessari flugu heiti, annar en faðir hönnuðarins sem þótti tilvalið að skíra hana Grábrók. Grábrók er fluga nr. 144 sem birtist hér á síðunni með uppskrift og smá lýsingu.

Grábrók

Senda ábendingu

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *