Flýtileiðir

Niðursuða

Ertu að bíða eftir að veiðitímabilið hefjist? Kannski búinn að fara yfir línuna, bóna stöngina og hreinsa lykkjurnar, kíkja á taumaefnið, gera við vöðlurnar sem láku í fyrra eða fjárfesta í nýjum? En hvað með fluguboxin? Áttu nóg af flugum eða áttu allt of mikið af flugum? Þetta er asnaleg spurning, ég veit, því hæfilegt magn af flugum lýtur sama lögmáli og allt annað veiðidót; hæfilegt magn er núverandi, plús einn.

Stundum er samt sniðugt að bakka aðeins og telja útgáfur í staðinn fyrir fjölda flugna. Ef þú átt þér einhverja uppáhalds flugu, þá er sniðugt að eiga hana í mismunandi stærðum, með og án kúluhauss eða annarrar þyngingar, jafnvel úr mismunandi efni eða viðaukum. Þegar ég tala um viðauka, þá er ég að tala um skraut og glimmer, æpandi flúor haus eða skott.

Og þó þú segist ekki eiga þér einhverja uppáhalds flugu, þá er ég næstum öruggur um að ef þú mundir sjóða fluguboxið þitt niður, taka þær frá sem þú notar sjaldan eða jafnvel aldrei (þær eru bara þarna af því þær eru flottar eða félagi þinn mælti með þeim) þá kæmu í ljós einhverjar go-to flugur sem þú notar oftast og gefa þér því oftast fisk. Kíktu svo á þessar flugur og athugaðu hvort þær séu allar eins, fljóta þær eða sökkva þær allar jafn mikið, eru þær allar jafn áberandi og eru þær allar í sömu stærð. Fagnaðu fjölbreytileikanum og eigðu go-to fluguna/flugurnar í nokkrum útfærslum fyrir næsta sumar. Ef einhver þeirra gefur ekki, finndu hana í örlítið annarri útfærslu og prófaðu, ef hún gefur ekki, þá áttu kannski sömu flugu í enn annarri útfærslu sem gæti gefið.

Senda ábendingu

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *