Flýtileiðir

Gleði í geði

Nú líður að lokum ársins 2024 og veiðimenn, rétt eins og aðrir, gera upp liðið ár, ef ekki formlega þá örlítið í huganum. Þegar litið er til baka, þá er ágætt að hafa eitthvað til hliðsjónar af því sem maður hafði um væntingar til ársins. Eitt af því sem ég lít til er það sem ég hef sett á blað fyrir bækling Veiðikortsins, þess árlegs pistils, sem einhverjir hafa mögulega rekið augun í þegar þeir flettu brakandi nýjum bæklingi Veiðikortsins.

Í 2024 bæklinginum varð mér einmitt hugleikið hvað minningar geta leikið okkur grátt, því þegar rifjað er upp og öll sönnunargögn liggja fyrir, þá var liðið ár e.t.v. allt öðruvísi heldur en mann rámaði í fyrstu til. Hvað FOS.IS hefur til málanna að leggja í nýjasta bæklingi Veiðikortsins má finna með því að renna í gegnum hann, á pappír eða rafrænt með því að smella hérna.

Eins og gengur voru aflabrögð misjöfn í stangveiðinni síðasta sumar. Það bar ekki í bakkafullan lækinn hjá laxveiðimönnum sökum vatnsskorts og steininn tók úr þegar strokulaxar sjókvíaeldis tóku að gera sig heimakomna í nokkrum vinsælum ám landsins.

Blessunarlega höfðu þurrkar ekki áhrif á vatnaveiðina svo nokkru næmi, þó vissulega hafi lækkað í mörgum vötnum. Í sumum þeirra þurfti að tölta nokkrum metrum lengra eftir fiski, en á móti kom að víða var hin ágætasta veiði, raunar mjög víða þegar litið er til vatnanna á Veiðikortinu.

Veiðin í Elliðavatni gladdi marga síðasta sumar, þar gaf fiskurinn sig og þá var ekki að sökum að spyrja, veiðimenn fjölguðu ferðum sínum þangað þannig að úr varð eitthvert besta veiðisumar síðustu ára.

Vorið lofaði góðu fyrir mína heilögu þrenningu; Langavatn á Mýrum, Hítarvatn og Hlíðarvatn í Hnappadal og þar eyddi ég nokkrum af mínum bestu dögum síðasta sumars. Að vísu var afraksturinn ekki í margar máltíðir, en á móti kom að Hellesens heilkennið fékk notið sín í botn og batteríin hlaðin í hverri ferð.

Á sama tíma var eins og bleikjan í Þingvallavatni vildi ekkert til þess vinna að komast í fréttirnar og lét lítið fyrir sér fara. Hvort kenna megi um ofáti urriðans eða einhverju öðru skal ósagt látið, en það er staðreynd að bleikjan í Þingvallavatni á undir högg að sækja og það verður forvitnilegt að fylgjast með henni næsta sumar.

Sjóbleikjan í Haukadalnum var aftur á móti mun sýnilegri heldur en oft áður og kom ítrekað við sögu í veiðisögum síðasta sumars. Haukadalsvatnið fór beinlínis á kostum og þeir sem lögðu land undir fót vestur í Dali komu flestir ósviknir til baka á meðan aðrir sem ekki áttu heimangengt, ég þar á meðal, nöguðu sig í handarbökin. Það skyldi þó aldrei vera að sjóbleikjan sé að sækja í sig veðrið innarlega í Breiðafirðinum.

Talandi um að leggja land undir fót, þá hefur nýr áfangastaður í grennd við höfuðborgina bæst við á Veiðikortið, Leirvogsvatn á Mosfellsheiði. Þar er tilvalið að staldra við á leið til eða frá Þingvöllum og kanna stöðuna á urriðanum, lunknir veiðimenn hafa oft gert ágæta veiði í vatninu.

En hvað ætli næsta sumar færi okkur Veiðikortahöfum? Ef að líkum má láta, þá fáum við notið íslenskrar náttúru og alls þess sem hún hefur upp á að bjóða. Enn er of snemmt að rýna í veðurspár, enda tek ég mér oft í munn orðatiltækið að veðrið sé aðeins hugarástand og klæði mig einfaldlega eftir því. Mig rámar til dæmis í að síðasta sumar hafi gengið í garð með einmuna blíðu, en þegar tölurnar eru skoðaðar þá kemur í ljós að það var víst frekar kuldalegt. Svona getur gleði í geði breytt minningum.

Að sama skapi rámaði mig í að aflabrögð síðasta sumars hafi verið í slakari kantinum og ég varð því aldeilis forviða þegar ég kíkti í frystikistuna um daginn, hvaðan kom allur þessi fiskur? Og talandi um það, núna þegar við þessi óþreyjufullu erum komin með bækling Veiðikortsins í hendurnar og erum byrjuð að láta okkur dreyma um næsta sumar, þá er ekki seinna vænna heldur en nýta afla síðasta sumars. Fara með hann í reyk, grafa eða einfaldlega smella honum á pönnuna með íslensku smjöri.

Með veiðikveðju, Kristján Friðriksson / FOS.IS

Senda ábendingu

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *