Flýtileiðir

Gleðilega hátið

Loksins settist ég niður og festi nokkuð orð á veraldarvefinn í aðdraganda jóla. Lofa náttúrulega bót og betrun á nýju ári, eins og svo oft áður, en tíminn ræður för og ekki alltaf mikill afgangur í lok langra vinnudaga.

Loksins tóku rithöfundar jóðsótt og fyrir þessi jól komu út nokkrar eigulegar veiðibækur. Árni Bald lagðist á sæng og sagði sögur sem festar voru í band í bókinni Í veiði með Árna Bald, glettin og skemmtileg bók þar sem Árni lætur gamminn geysa eins og honum einum er lagið.

Steinar J. Lúðvíksson lét loks undir áskorun Orra heitins Vigfússonar og skráði sögu Laxár í Aðaldal í bókina Drottning norðursins, 80 ára saga Laxárfélagsins. Bókin er ríkuleg að öllu leiti, fallega skrifuð saga félagsins og hafsjór fróðleiks um Laxá í Aðaldal með nokkrum vel völdum veiðisögum sem fylla heilar 349 blaðsíður í stóru broti.

Jörundur Guðmundsson ritstýrði fjölda höfunda bókarinnar Laxá, Lífríki og saga mannlífs og veiða sem kom út kom fyrir þessi jól. Eftir því sem mér skilst, þá eiga þeir Sigurður Magnússon og Ásgeir Hermann Steingrímsson mestan part textans, en að auki leggja margir staðkunnugir hönd á verkið. Eins og fram kemur í kynningu bókarinnar, inniheldur hún veiðistaðalýsing fyrir Laxá í Mývatnssveit og Laxárdal, lýsingum lífríkis, ásamt sögu og mannlífs við þessa merku silungsveiðiá. Bókin er mikið verk, heilar 304 blaðsíður og ríkulega myndskreytt.

Sunnan heiða og vestan, settust þeir Stefán Þórarinsson ásamt Arnóri og Einari Sigurjónssonum niður og skrifuðu Kjarrá og síðustu hestasveinarnir á Víghól. Bókin er glettinn, rómantískur óður fyrrum hestasveina til fjallveiða við Kjarrá þar sem þeir segja frá hestum, mönnum og veiði, ásamt spaugilegum uppákomum veiðimanna í glímunni við laxinn í Kjarrá. Bókin er 250 blaðsíður, full einlægra frásagna fyrri tíma.

Allt eru þetta eigulegar bækur, en trúlega er Fylgirit Veiðikortsins sú útgáfa sem nær mestri útbreiðslu ár hvert á Íslandi. 116 blaðsíður af gagnlegu efni um þau 37 vötn sem Veiðikortið veitir aðgang að á sumri komanda, ásamt öðrum fróðleik og skemmtun fyrir handhafa kortsins. Að venju á undirritaður smá innlegg í bæklinginn, þannig að eitthvað hef ég fest niður blað á árinu.

Og fyrst ég er byrjaður að plögga sjálfum mér, þá má finna aðra prentun Vatnaveiði -árið um kring í öllum betri bókabúðum landsins. Þetta síunga afsprengi mitt, sem fagnar 10 ára afmæli á næsta ári, virðist enn höfða til veiðimanna og áhugafólks um vatnaveiði og er tilvalin fyrsta veiðibók hvers veiðimanns.

Að þessu sögðu, óska ég lesendum FOS gleðilegrar hátíðar og farsældar á komandi ári, en fyrst og fremst gleði og ánægju í veiði.

Senda ábendingu

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *