Flýtileiðir

Hlíðarvatn í Hnappadal – 9. júní 2024

Stundum þarf maður smá spark í rassinn til að ná honum upp úr stólnum. Ég fékk svona spark í dag, lagði frá mér verkefnin og brá mér vestur í Hlíðarvatn í Hnappadal með góðum vini mínum úr Borgarnesi. Sumir halda því fram að mannskepnan þjáist af H – vítamínskorti, en það á ekki við um þennan félaga minn eftir daginn í dag. Hér með fær hann stóran skammt af H – vítamíni frá mér, takk fyrir að draga mig með í Hnappadalinn, frábært að komast aðeins frá og takk fyrir samveruna.

Byrjum á föstum liðum eins og venjulega þegar Hlíðarvatn í Hnappadal ber á góma; vatnið. Það er slatti af því, eiginlega töluvert mikið eins og sjá má á þessari mynd. Dásamlegt veður, þokkalegur hiti og glampandi sól. Hvað er hægt að biðja um meira? Jú, kannski einn fisk.

Eftir nokkrar tilraunir með nýjan taum á nýrri línu, sannfærðist ég um að uppsetningin væri ekki alveg við hæfi og skipti um taum. Allt annað líf og ég andaði léttar, það var ekki ég sem var að klikka í köstunum, það var óviðeigandi taumurinn sem drap alla hleðslu í kastinu. Hvað um það, eftir nokkur köst við Rifið (kem nánar að staðarvalinu síðar), kom þessi líka spræki og skemmtilegi fíngerði urriði á svartan Nobbler.

Þessi krúttmoli fékk þann heiður að vera fyrsti fiskurinn þetta sumarið úr Hlíðarvatni í Hnappadal og var vitaskuld sleppt aftur að myndatöku lokinni. Fleiri urðu fiskarnir að vísu ekki í þessari fyrstu ferð sumarsins í Hnappadalinn, en ferðirnar verða örugglega fleiri.

Svo vikið sé að veiðistaðnum, Rifinu. Það var engin tilviljun að Rifið varð fyrir valinu í þessari fyrstu heimsókn sumarsins. Á þessum veiðistað hefur oft verið rifið í flugu hjá mér og margir fiskar rifist um að að komast að, en að þessu sinni tileinka ég staðarvalið góðum kunningja mínum sem enn hefur ekki auðnast að fá fisk í Hlíðarvatni í Hnappadal, þrátt fyrir nokkrar heimsóknir í vatnið. Allar hafa þessar ferðir verið snautlega viðburðalitlar, nema kannski sú síðasta. Þá varð honum fótaskortur svo hrikalegur við vatnið að hann féll við. Eins og sönnum veiðimanni sæmir, þá hugsaði hann um það eitt að bjarga veiðistönginni og fórnaði því nokkrum af rifjum sínum í hennar stað. Án þess að nefna nokkur nöfn, þá rifjaðist þessi hrakfalla saga upp fyrir mér í dag á meðan ég tók þennan fyrsta fisk sumarsins í Hnappadalnum, einmitt við Rifið. Næst þegar þú verður á ferðinni, ónafngreindi kunningi minn, þá er þér velkomið að renna við hjá mér vestur á Mýrum og í sameiningu getum við rifjað upp góða veiðistaði og jafnvel haft einhver ráð undir einhverju rifi með að útvega þér leiðsögn í Hlíðarvatnið þannig að þú fáir nú fisk.

Þeim sem áhuga hafa á að kynna sér Hlíðarvatni í Hnappadal er bent á upptöku af veiðistaðakynningu minni um vatnið sem finna má hérna.

2 svör við “Hlíðarvatn í Hnappadal – 9. júní 2024”

  1. Ólafur Marteinsson Avatar
    Ólafur Marteinsson

    Alltaf frabær lestur. Var með eina hugmynd. Þegar vatn hefur verið valið í flokknum vötnin, væri gaman að hafa tengla í færslur um viðkomandi vatn. 😉

    Líkar við

  2. Kristján Friðriksson Avatar

    Sæll og takk fyrir.
    Undir hverju vatni fyrir sig er hnappur sem ber heitið ‘Veiðiferðir’ og með því að smella á hann koma allar færslur sem tengjast viðkomandi vatni.
    Bestu kveðjur,
    Kristján

    Líkar við

Senda ábendingu

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *