Flýtileiðir

Veiðivötn – 15. til 17. sept. 2023

Þannig að allrar sanngirni sé gætt, þá ætti þessi pistill að vera einstaklega stuttur, sem hann trúlega verður. Þetta árið hef ég verið að myndast við að fylla á þann flokk hér á síðunni sem heitir Veiðisögur og hef einsett mér að gefa lítið fyrir gagnrýni og aðdróttanir ef einn og einn kvöldmat ber fyrir augu lesenda.

Að öllum líkindum hef ég nú lagt árar í bát þetta sumarið og mér fannst við hæfi að ljúka því á sömu slóðum og ég (næstum) hóf veiðisumarið, í Veiðivötnum.

Haustið í Veiðivötnum

Það er náttúrulega komið haust og allra veðra von uppi á hálendi en fegurð Veiðivatna er alltaf söm við sig og ekkert síðri á haustinn. Þessi unaðs reitur hefur sveiflað mér á milli fögnuðar og fágætis í sumar, einhverjar ferðir hafa verið stórkostlegar í fiskum talið, aðrar hafa verðið heldur tíðindalitlar og svo allt þar á milli. Þær eiga það þó allar sameiginlegt að félagsskapurinn hefur verið frábær og fyrir það er ég óendanlega þakklátur og félagsskapurinn þessa helgi gaf öðrum veiðifélögum mínum þetta sumarið eftir, nema síður sé. Gamalkunnur veiðifélagi minn stóðst ekki mátið og slóst með í för og svo auðvitað var aðal Veiðivatnafélagi minn með og … frábærir nýir félagar sem ég hef ekki notið veiðisamveru við áður. Takk, öll fjögur fyrir frábæra samveru yfir helgina.

Ha? Var einhver að spyrjast fyrir um aflabrögð? Einmitt, þetta átti að vera stuttur pistill og hann verður það. Ég var sem sagt lánlausasti veiðimaður hópsins, náði einum stubb á föstudagskvöldið og svo einum vænum á sunnudaginn. Nú má geta sér til um að ég hafi ekki veitt einn einasta fisk í rokinu á laugardaginn og það er bara alveg rétt. Á meðan félagar mínir á flugunni fóru hamförum í fiskum sem voru á bilinu þrjú til tæp átta pund (16 stk.) á laugardaginn, þá baðaði ég sömu flugur á sömu slóðum (vart 5 metrar á milli okkar) og fékk ekki eitt einasta högg. Svona getur nú dagsformið verið misjafnt á milli veiðimanna og þennan dag dró ég stutta stráið. Sár? Nei, heldur betur ekki því það var beinlínis ævintýri líkast að sjá þau tvö draga hvern stórfiskinn að landi.

Nammið

Til allrar lukku (fyrir mig) þá veiddum við þrjú í púkk og skiptum með okkur aflanum á aðgerðarborðinu á sunnudaginn áður en við kvöddum veiðifélaga okkar og góða vini, héldum heim á leið enda er nú búið að skella í lás í Veiðivötnum. Sjáumst aftur næsta sumar!

Af einhverri fávisku, þá tók ég fáar myndir í Vötnunum að þessu sinni og því leyfi ég þessari mynd að fljóta með, kvöldmatur dagsins á meðan ég sauð þessa frásögn saman. Pönnusteiktur Veiðivatnaurriði með pestó, kartöflu- og hrásalati, einn kaldur, meira þarf ekki til að gæla við bragðlaukana.

Senda ábendingu

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *