Veiðiferð mín og nokkurra vina um helgina að Framvötnum hefur verið að valda mér nokkrum heilabrotum því hún var ekki í neinu samræmi við stutta vettvangsathugun sem ég gerði á nokkrum vötnum þar 5. júlí s.l. Þegar maður fær eitthvað á heilann, þá er annað hvort að rífa sig upp úr þankaganginum með einhverju sjokkerandi eða svala forvitninni og leita skýringa.

Hvort sem mér hefur tekist að finna líklega skýringu eða ekki, þá ætla ég að láta hitasveiflur dags og nætur á veðurathugarstöð í grennd duga til að losa um þennan heilaorm sem gróf um sig í kollinum á mér. Miðað við mína upplifun á laugardaginn af ráfi mínu um bakka Blautavers og Frostastaðavatns í hátt í 20°C hita og síðan kvöldinu við Dómadalsvatn í 5°C, þá eru sveiflurnar á myndinni hér að ofan væntanlega aðeins ýktari í Framvötnum austanverðum heldur en á þessari veðurathugunarstöð. Þegar hitasveiflur dags og nætur eru 10°C og yfir, þá er mögulega ekki von á að silungurinn sé í miklu tökustuði eins og við sexmenningarnir upplifðum um helgina.
Ég og veiðifélagi minn mættum snemma við Landmannahelli á föstudaginn, settum upp vagninn og nutum blíðunnar og hádegisverðar úti undir beru lofti áður en við lögðum land undir fót og renndum austur að Blautuveri. Markmiðið var að næla í nokkrar bleikjur í harðfisk. Það lagði létt kul inn í verin frá Tungnaá úr norðri en við létum slag standa og renndum fyrir fisk. Svo það sé sagt strax, þá náðist markmið leiðangursinns hreint ekki. Ef mig misminnir ekki, þá voru þessir tveir urriðatittir sem ég náði einu fiskarnir sem létu á sér kræla þann tíma sem við eyddum við vatnið, bleikjan víðsfjarri og fluglinn var ekkert að hafa fyrir því að kafa eftir æti.

Á leið okkar til baka renndum við inn að Dómadalsvatni með það í huga að láta nokkra urriða duga, en nei. Það fór nú ekki svo að urriðinn væri eitthvað viðlátinn og satt best að segja var vatnið sérstaklega líflaust að sjá. Svona til að hafa frá einhverju að segja, þá langar mig að hafa orð á því að það er lítið um fast land undir fótum á grynningunum að sunnan og vestan í vatninu. Þar sem á þessum slóðum hefur hingað til verið hægt að vaða örugglega út að dýpinu, þar eru drullupyttir við hvert fótmál sem tókst auðveldlega að fanga veiðimenn upp fyrir hné og jafnvel ofar og halda þeim föstum þannig að töluvert bras var á í það minnsta fimm veiðimönnum að losa sig. M.ö.o. farið varlega á þessum slóðum þar til botninn hefur náð að festa sig. Ég hef, á öllum þeim árum sem ég hef stundað Dómadalsvatn, ekki orðið var við botninn haga sér svona.
Laugardaginn byrjaði hópurinn í Blautaveri, veður var með ágætum en lítið líf, í raun ekkert á öllu því svæði sem ég skannaði sem var ríflega helmingur strandlengjunnar. Þar sem við veiðifélagarnir vorum forvitnir um ástand bleikjunnar í Frostastaðavatni eftir nokkur ár sem vatnið hefur verið grisjað af miklu harðfylgi, ákváðum við að renna þar við og kasta nokkrum vel völdum flugum fyrir fisk. Það er e.t.v. til marks um gæftaleysið að við þurfum bara hreint og beint að hafa fyrir því að ná sýnishornum bleikjunnar. Vel að merkja, þá lögðum við ekki land undir fót inn að hrauninu, létum ströndina undan bílastæðinu við Frostastaðaháls nægja, en það svæði hefur nú ekki verið þekkt fyrir aflatregðu. Tveir félagar okkar fóru reyndar inn í hraunið og gerðu ágæta veiði. Þrátt fyrir að stærð fiska væri í smærri kantinum, þá voru þeir vel haldnir og virtust ekki hafa soltið heilu hungri síðustu vikurnar. Það er vonandi að haldið verði áfram á þeirri vegferð grisjunar sem lagt hefur verið af stað í, hún virðist vera að skila árangri.
Þegar leið á daginn jókst vindur nokkuð og við félagarnir ákváðum að renna inn á Landmannahelli, fá okkur bita og viðra tær úr vöðlum. Á meðan sumir fengu sér kríu í vagninum, fór ég inn að Löðmundarvatni og tölti inn með hlíðinni að norðan, ef svo vildi til að þar væri þokkalegt skjól fyrir því sem ég hélt að væri norðan átt. Þegar inn með hlíðinni dró, var vindur eiginlega úr öllum áttum og töluverð ólga á vatninu og gárurnar vissu greinilega ekkert í hvaða átt þær ættu að stefna. Það var svipuð upplifun þar og í Frostastaðavatni, ég þurfti að hafa töluvert fyrir því að ná fiski og þeir voru allir í smærri kantinum. Voru reyndar vel haldnir og fallegir, en stærri fiskinn vantaði alveg á mínar flugur. Það kom á daginn að upplifun annarra í hópnum var á sama veg, erfiðlega gekk að ná fiskinum á sitt band, en þeir sem gáfu sig voru í ágætis standi.
Þegar Þyrnirós hafði klárað kríuna sína, ákváðum við að elta sólageislana sem náðu niður í Dómadalinn, taka jafnvel öruggu leiðina inn með vatninu að austan og athuga hvort fiskurinn væri eitthvað að gefa sig undir hlíðinni eins og oft hefur nú gerst síðdegis. Það kom á daginn að það var pínulítið líf á þeim slóðum. Ég fékk góða töku og veiðifélagi minn tók þokkalegan pundara, en þar með var sagan öll. Einn skrattakollur sýndi fimleika sína úti á vatninu miðju í smá stund, synti á móti öldunni og lét sjá sig reglulega í smá sund. Það var nú allt lífið sem við urðum vör við á leið okkar hringinn í kringum vatnið og þegar hitastigið var komið niður undir 5°C, þá létum við gott heita og fórum heim í vagninn, hituðum okkur kvöldverð og hituðum vagninn vel og vandlega fyrir nóttina.

Aflabrögð voru sem sagt með minnsta móti í þessari ferð og þegar vindkviður sunnudagsmorgunsins tóku sig til og lyftu tjaldvagni félaga okkar og færðu hann til um nokkra tugi sentímetra, þá létum við öll gott heita, tókum okkur saman og héldum til byggða. Ef ekki hefði verið fyrir frábæran og jákvæðan félagsskap í þessari ferð, þá hefði hún verið heldur endasleppt og maður farið sneyptur heim, en svona getur fallegt umhverfi og góður félagsskapur bjargað veiðiferð og ég var í það minnsta sáttur á leið minni yfir á malbikið. Takk öll fyrir samveruna á fjöllum.









Senda ábendingu