Ef ég þyrfti að leita að afsökun fyrir aflabresti þá hefði ég trúlega gripið til óheyrilegs hita og sólskyns í Hnappadalnum. Sem betur fer þá er engrar afsökunar þörf, það var alveg nóg af fiski þótt stærðin hefði mátt vera meiri. Þar sem mig bar að var eiginlega fiskur um allt, nema þá helst sunnan megin við Rif þar sem vatnshitinn fór vel yfir 16°C sem bleikju og urriða þykir víst í meira lagi.

Stærð fiskanna var alveg frá því að vera Æ, nú er gróður á flugunni og upp í Þennan er nú alveg hægt að hirða, stærri voru þeir nú ekki. Þessi skortur á vænum fiskum vakti hjá mér spurninguna um það hvort stærri fiskurinn sé viðkvæmari fyrir hækkandi vatnshita heldur en sá smærri. Almennt var hitastig vatnsins frá 12 til 14°C og lækkaði lítið að kvöldi til sem gæti skýrt það að fiskur fór ekkert stækkandi þótt komið væri að sólarlagi.

Það er alltaf skemmtilegt að komast í blönduð vötn þar sem jöfnum höndum er von á urriða og bleikju. Þá getur maður rifjað upp mismunandi flugur og inndrátt sem ætlað er að laða aðra hvora tegundina að. Ég leyfið mér að eyða töluverðum tíma á stað þar sem báðar tegundir eru á sama blettinum (rétt við Neðri-skúta, sjá kort) og gerði smá tilraun með Watson‘s Fancy púpu annars vegar og lítill svartan og gylltan Nobbler hins vegar. Reyndar var græðgi þessara stýra þannig að aflabrögð eftir mismunandi flugum var nánast engin. En inndrátturinn gerði útslagið svo ekki skeikaði nema einum fiski af 20. Óvísindaleg niðurstaða; Leoncie inndráttur (hálfgert stripp) skilaði 10 urriðum á meðan Halla Margrét (Hægt og hljótt) skilaði 9 bleikjum og einum urriða.

Að eilífðar spurningu unnenda Hlíðarvatns í Hnappadal; Hvernig er vatnsstaðan? Hún er frekar í hærri kantinum miðað við árstíma. Rigningartíð undanfarinna vikna hefur væntanlega fyllt á vatnið, það er hærra í því heldur en þegar ég heimsótti það um páskana. Ég náði t.d. ekki að vaða út í skerin undir Fellsbrekku, eins gjarnan og hefði nú viljað það til að ná betur út í dýpið (kaldara vatn).


Ég eyddi töluverðum tíma í að þræða Hraunið með þristinn minn í farteskinu og það er óhætt að segja að það er fiskur í öllum víkum, krókum og kimum sem eiga samgang við vatnið sjálft. Það kom skemmtilega á óvart að flestir fiskarnir sem ég flokkaði í Þennan er nú alveg hægt að hirða var að finna í Hrauninu og þeir voru alveg bráð skemmtilegir á létta stöngina. Eina sjáanlega afrennsli vatnsins þegar ekki rennur um Hraunholtaá er undir hraunið og það var töluverður straumur á milli pollanna, allt þar til það hvarf um gjótu eða bara beint inn í hraunið. Alltaf jafn magnað að sjá hve rennslið er mikið.

Í heildina tók ég einhverja 30 – 40 fiska og flestir voru þeir af þessari stærð en ég hef fulla trú á að ef vatnið kólnar aðeins eða ský dregur fyrir sólu, þá hlaupi vænni fiskar á snærið hjá veiðimönnum og því enginn ástæða til ætla að einhverja stóra árganga vanti í vatnið. Allir fiskarnir voru í góðum holdum, heilbrigðir að sjá og tóku merkilega vel í, þrátt fyrir hitann.

Hvað sem stærð fiska líður, þá er alltaf jafn frábært að veiða og gista í Hnappadalnum, slaka á og njóta þess einfaldlega að vera. Elda sér löðrandi kryddaða, 3ja hæða samloku, setjast niður í grængresið, berja frá sér flugur og njóta útsýnisins. Þá á sér stað ákveðin hugljómum þegar maður kveikir á því að stöku píp á ekki uppruna sinn í farsíma, heldur berst af næstu þúfu þar sem lóan situr og lætur ungana sína vita af mannaferðum. Náttúrulegt píp sem maður getur bara ekki látið framhjá sér fara og róar í stað þess að æsa.









Senda ábendingu