Það er hreint ekki alltaf auðvelt að gera upp við sig hvaða flugur maður eigi að velja úr geymsluboxinu yfir í jakkaboxið. Í mínu tilfelli skiptast geymsluboxin mín næstum því í tvo jafna helminga; flugur sem hafa sannað sig og svo tilraungripi. Þegar ég tala um flugur sem hafa sannað sig, þá eru það reyndar oftast eldri flugur eða þær sem bregða lítið frá eldri fyrirmyndum. Flestar hafa þær einfaldleika þess að vera mótív skordýra eða smáfiska sem hafa fyrir löngu sannað sig.
Undir tilraunagripi flokkast nýjungar í sköpulagi, efni eða útliti. Oft glannalegar nýjungar sem einhver gerði frábæra veiði á í fyrra eða árið þar á undan sem sögurnar glöptu mann til að hnýta heilu raðirnar af í mismunandi stærðum; Þessa verð ég að prófa. Ég er alls ekki einn um að láta glepjast, það fjölgar sífellt í flokkinum tilraunagripir og framboðið eykst ár frá ári. Hugmyndaauðgi hnýtara eru fá takmörk sett og ný efni til hnýtinga ýta undir nýjar flugur eða betrumbættar útgáfur eldri flugna.
Samtals er framboð þrautreyndra flugna og tilraunagripa orðið slíkt að veiðimenn eru, margir hverjir, haldnir valkvíða á mjög háu stigi. Í stað þess að ná tökum á ákveðinni flugu, gera smávægilegar breytingar á henni ef hún stendur ekki undir væntingum, þá sveiflast menn öfganna á milli, staldra stutt við tegund eða útfærslu flugna. Sumar flugur ganga í augun á fiski, aðrar ganga í augu veiðimanna og þannig verða sífellt til fleiri og fleiri tilraunaflugur. Ég upplifi það að vera með tilraunaflugu á tauminum í klukkutíma, útheimtir aðra tvo á milli fingranna við þvinguna, gera einhverjar breytingar sem ég tel vera til bóta, oftast eitthvað smáræði til einföldunar. Svo tekur annar klukkutími við með hana í veiði og ef illa gengur, bæði í fiskum talið eða framsetningu, þá taka bara aðrir tveir tímar við í lagfæringum.
Eftir stendur að lífseigustu flugurnar eru þessar hefðbundu og ef ég raða í jakkaboxið mitt, þá fylla þær ¾ á meðan tilraunaflugurnar fá aðeins ¼ af plássinu. Smátt og smátt, með tíð og tíma færast þó alltaf fleiri og fleiri úr tilraunaflugum yfir í þær sem hafa sannað sig, með öðrum orðum þeim fjölgar þar sem smekkur minn og fiskanna fer saman, nokkuð sem einkennist helst af því að ég lúffa fyrir þeirra smekk.

Allur sá tími sem fer í að fínpússa hugmynd að flugu er þó minnsta málið. Það er ekki fyrr en á veiðislóð er komið að hin raunverulegu vandmál fara að skjóta upp kollinum, því sjaldnast er það jafn augljóst og á myndinni hér að ofan hvað flugu skal velja og bjóða fiskinum.









Senda ábendingu