Það er hægt að tuskast við fleira en fisk í veiði. Reglulega seilist ég í innanávasa á jakkanum mínum eða vöðlunum og næ mér þar í tusku sem ég bregð á línuna, sérstaklega ef ég er að veiða í vatni sem auðveldlega gruggast eða er auðugt af plöntu- eða dýrasvifi.
Ég hef minnst á þetta hér áður, en bara vegna þess að ég hrasaði nýlega yfir reynslusögu veiðimanns þar sem hann dásamaði örtrefjaklút til að þurrka af línunni sinni, þá langar mig til að árétta að nota ekki slíka klúta á flugulínur. Vissulega eru örtrefjaklútar fljótvirk leið til að þrífa óhreinindi af flugulínum, en þeir eru, eins og nafnið bendir til, búnir til úr örtrefjum og eru í raun ekkert annað en afar fíngerður pottaskrúbbur, framleiddur úr hráefnum eins og polyester, nylon, kevlar eða nomex. Allt kemísk efni sem eru harðari heldur en hefðbundin efni sem notuð eru í flugulínur.

Við endurtekna notkun á örtrefjaklút fjarlægir þú smátt og smátt ysta lagið af flugulínunni og það er einmitt lagið sem tryggir rennsli línunnar í gegnum stangarlykkjurnar. Í staðinn ættir þú að vera með mjúkan bómullarklút, jafnvel gleraugnaklút sem er örlítið stamur. Þeir klútar gera sama gagn og örtrefjaklútur, bara að muna að þrífa aldrei þurra flugulínu með þurrum klút. Annað hvort klúturinn eða línan verða að vera blaut, annars ertu að nota óhreinindin eins og slípimassa.









Senda ábendingu