Hver kannast ekki við að finna frábæra flugu, hnýta eina eða tvær og snúa sér síðan að einhverri allt annarri? Ef einhver kannast hreint ekkert við þetta, þá bara gott hjá þér. Athugið, þeir sem aldrei hafa hnýtt flugu hafa ekki atkvæðarétt.
Fluguhnýtingar eru rétt eins og flest annað í lífinu, æfingin skapar meistarann, ef það er á annað borð markmiðið. Ég held raunar að ég sé ekki einn um að vera fullsáttur við að ná sæmilegum flugum og ber gjarnan fyrir mig að fiskurinn hefur aldrei séð uppskrift að flugu og veit því ekkert hvernig rétt fluga lítur út.
En, það er samt eitthvað til í því hjá hnýtingarsnillingunum þegar þeir gefa nýliðum í föndrinu það ráð að velja sér flugu sem þeir hafi veitt á, setjast niður með öll nauðsynleg hráefni og hnýta kvikindið í 5 – 10 eintökum, jafnvel fleirum. Það að hnýta sömu fluguna aftur og aftur verður til þess að flugan verður einsleit, nokkurn veginn alltaf eins og af góðum gæðum. Þegar færninni er síðan náð, þá er aldrei að vita nema þú komir auga á eitthvað sem betur má fara í upprunalegu uppskriftinni eða þér hentar betur að gera með öðrum hætti heldur en höfundur flugunnar setti upprunalega niður á blað.
Senda ábendingu