Ég ætla ekki að segja að Sauðafellsvatn sé einhver biðstöð eftir næsta strætó, en á föstudaginn nýttum við tækifæri á meðan við biðum eftir því að lokið yrði við vegaviðgerðir að Fjallabaki og smelltum okkur í Sauðafellsvatn undir rótum Heklu.

Sala veiðileyfa í vatnið hófst í fyrra, en þá létum við það framhjá okkur fara að kíkja í það, en nú þótti okkur tilvalið að smella okkur á einn dag í vatninu. Staðsetning vatnsins við Landmannaleið er alveg tilvalin áfangastaður ef menn eru ekkert að flýta sér inn að Framvötnum. Næstu gistimöguleikar eru í Áfangagili skammt þar frá í norður.

Við vorum tiltölulega snemma á ferðinni á föstudaginn og það voru e.t.v. stærstu mistökin okkar. Kunnugir hafa sagt mér að fiskurinn í vatninu sé frekar seinn á fætur, drattist ekki upp á grynningar fyrr en síðdegis eða jafnvel seint á kvöldin og það gæti bara vel verið, því við urðum ekki vör við fisk fyrr en það nálgaðist seinna kaffi.

Vatnið liggur í skál rétt norðan við Heklu, austan Sauðfells og er ekki nema 0,6 km2 að flatarmáli. Hringurinn um vatnið er ekki nema u.þ.b. 2,8 km og hann fórum við til að kanna mögulega veiðistaði. Í stuttu máli; ákveðnir veiðistaðir eru frekar fáir að sjá, sem ræðst af því að vatnið liggur í sanddæld og mér er til efs að í þeirri dæld sé að finna einhverja þá misfellu, stein eða tanga sem gæti skapað ákveðinn veiðistað. Vatnið í heild sinni er einn stór veiðistaður og það er fiskurinn sjálfur í því sem stýrir því hvar hann lætur sjá sig. Að þessu sinni sáum við til fiskjar nyrst og austast í vatninu. Illu heilli vorum við einmitt stödd þarna mitt á milli þegar það gerðist og máttlaus eltingaleikur okkar við þær byltur skilaði ekki einu einasta höggi.

Rétt um kl.20 brast þolinmæðina og við héldum til baka, sóttum vagninn okkar og héldum sem leið lá inn ný-opnaða Landmannaleið í átt að Framvötnum. Ef ég ætti að mæla með einhverju sérstöku í þessu vatni, þá væri það góður skammtur af þolinmæði og bíða þess að fiskurinn komi upp úr dýpinu (sem er óþekkt) þegar skyggja fer. Eflaust er töluvert líf á grynningunum þegar svo ber undir, þarna er slatti af fiski af grimmum Grenlækjastofni sem getur alveg farið hamförum, að sögn.
0 / 0
3 / 8
0 / 0
3 / 7
13 / 13
Senda ábendingu