Flýtileiðir

Hítarvatn 17. júní 2020

Hvað er hátíðlegra á þessum degi heldur en fara út í guðs græna náttúruna og renna fyrir fisk? Ég veit það ekki og mér er eiginlega alveg sama, því við veiðifélagarnir tókum okkur til rétt um hádegið og renndum vestur í Hítardal.

Oft hefur dalurinn tekið vel á móti okkur, en sjaldan eins og í dag. Hann skartaði sínu fegursta, þó oft hafi hann verið grænni en einmitt núna. Hann er svona meira alveg út í blátt þessar vikurnar, því borðum hefur verið skotið í allar gáttir stíflunnar vestan við Hólm og það hefur hækkað MJÖG mikið í vatninu, við misjafnar undirtektir veiðimanna.

Fyrir rúmri viku síðan gerðum við stutt stopp í dalnum og virtum fyrir okkur umtalaða hækkun og ég játa það alveg að mér stóð eiginlega ekki á sama. Allir þekktir veiðistaðir voru horfnir niður í dýpið og vatn flæddi um allar koppagrundir austan við Hólm.

Hafi ég haft einhverjar áhyggjur af stöðunni áður, þá var líka alveg tilefni í áhyggjur í dag þar sem enn hefur hækkað í vatninu. Þar sem grængresið stakk sér upp í hrauninu áður, þar renna nú lækir í öfuga átt.

Þessi litli sæti lækur er einn þeirra sem rennur í öfuga átt. Hann rennur ekki til vatnsins eins og flestir aðrir á þessum slóðum, hann rennur úr því og inn á eitthvert besta tjaldstæðið í dalnum.

Og svona lítur tjaldstæðið út í dag, stöðuvatn sem hækkar og hækkar og nær nú yfir ansi drjúgan spöl af veginum austan við Hólm. Þá sem eiga erindi um þetta svæði, langar mig að biðja um að sleppa því alveg að böðlast yfir þetta stöðuvatn, ávinningurinn verður lítill í tíma talið en skemmdir á gróðir miklar.

En víkjum nú aftur að veiðiferð okkar í dag. Við sem sagt lögðum bílnum þarna einhversstaðar Langíburtistan og töltum drjúgan spöl niður að vatnsbakkanum, þ.e. þeim sem er núna við vatnið en var áður upp í miðri hlíð. Svolítið ýkt, en sagan er betri þannig. Það leið ekki á löngu þar til ég varð var við einhverja hreyfingu í vatninu og skömmu síðar var tekið hraustlega í fluguna, en sleppt jafn harðan. Takk, þetta var greinilega of hægur inndráttur og bleikjunni gafst því færi á að sleppa Higa‘s SOS sem var undir. Breyttur inndráttur, styttri og sneggri, og bleikjan stóðst ekki mátið. Þokkalegur fiskur kom á land og í fyrsta kasti eftir löndun var tekið aftur í fluguna. Jæja, þetta gæti bara orðið ágætis ferð.

Áður en lengra er haldið í frásögninni, skulum við fara á slóðir fyrri veiðiferða. Fyrir rúmu ári síðan ávann ég mér töluverðar óvinsældir veiðifélaga míns þegar ég fagnaði heldur ótæpilega hverjum þeim fiski sem ég náði umfram hana. Minnugur þeirra viðbragða og undirtekta sem ég fékk, þá fór ég hljóðlegar með þá fiska sem ég tók í Hítarvatni í dag. Ég var ekkert að telja þá hátt og snjallt eða vega þá og meta við hennar fiska, sem á sér einfalda skýringu sem sést best á aflatölum hér að neðan.

Þegar annað okkar hefði veitt nægju sína og sleppt því sem annars hefði horfið á pönnunni, þá tókum við félagarnir okkur upp og færðum okkur vestur fyrir Hólm til að bera saman upplifun okkar fyrir rúmri viku síðan við daginn í dag.

Vestan við Hólm er þessi stífla sem er nú nær alveg stífluð. Fyrir rúmri viku flaut rétt aðeins yfir hana og lítið sem ekkert lak út um lokurnar. En í dag, þá flaut vel yfir og eitthvað hafa borðið í lokunum látið undan öllum þeim massa af vatni sem safnast hefur saman. Manni verður e.t.v. spurn; hvað ætla menn að gera við allt þetta vatn? Mögulega vilja menn geyma vatnið fyrir Hítará, eiga það uppá að hlaupa ef það hættir nú alveg að rigna í sumar þannig að laxinn hafi nú eitthvað vatn til að hreyfa sig í? Kannski vilja menn eiga þetta til að skola hinn nýja Panamaskurð sem stendur til að grafa í gegnum skriðuna neðar í dalnum? Hvað veit ég, en hitt veit ég að við félagarnir áttum góðan dag við Hítarvatn í dag og við þurfum ekki að svelta á næstu dögum, ekki frekar en fiskarnir í Hítarvatni sem hafa greinilega úr nógu að moða sem berst til vatnsins þessa dagana.

Þeir lesendur sem  hafa dulda unun af því að bera veiðitölur okkar hjóna saman taka eftir því að nú hefur fjöldi ferða allt í einu orðið jafn, þ.e. 11 veiðiferðir. Þetta skýrist af því að í síðustu ferð okkar veiddi aðeins annað okkar á meðan hitt þóttist sinna embættisverkum.

Bleikjur í ferð
0 / 5
Bleikjur alls
3 / 8
Urriðar í ferð
0 / 1
Urriðar alls
3 / 7
Veiðiferðir
11 / 11

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com