Þegar maður er búinn að lakka, já eða líma hausinn á flugunni, þá verða stundum þessar leiðinda leyfar af lími eða lakki eftir í auga flugunnar. Ef maður hefur ekki rænu á að fjarlægja þetta strax, þá er næstum öruggt að þegar til flugunnar á að taka, þá er maður í tímaþröng og má eiginlega ekkert vera að því að stinga storknað límið eða lakkið úr auganu.
Margir hnýtarar hafa tiltæka fjöður á hnýtingarborðinu til að renna í gegnum augað um leið og búið er að ganga frá hausnum. Eins góð og fjöðrin er nú, þá á hún það til að klístrast saman og gera lítið gagn eftir það. Þá getur komið sér vel að vera með nokkra svona tannhirðubursta við höndina, helst í nokkrum sverleikum til að hreinsa úr auga flugunnar. Það er alls ekki þörf að kaupa nýja bursta, notaðir burstar gera alveg sama gagn.
Senda ábendingu