Flýtileiðir

Geymdu minningarnar

Það verður enginn óbarinn biskup og það á við um mig eins og flesta aðra. Fyrstu flugurnar mínar voru ekki merkilegar, beinlínis öll mistök sem hægt var að gera í hnýtingum hrönnuðust upp hjá mér í fyrstu. Þær voru nokkrar sem lentu undir hnífnum og ég skar allt af þeim til að endurnýta krókinn. Fljótlega gerði ég þó verðsamanburð á krókum og lærdómi sem reyndist lærdóminum í vil og ég hætti að skera ljótu flugurnar mínar niður.

Minningakort
Minningakort

Í staðin setti ég smá svamp á pappaspjald og festi upp á vegg við hliðina á þvingunni minni þar sem ég safnaði þeim flugum sem aldrei áttu að koma fyrir fiska augu. Í einhverju bjartsýniskasti útbjó ég aðeins eitt svona spjald til að byrja með. Fljótlega bættust reyndar nokkur önnur spjöld við, en þeim tilfellum fer nú fækkandi sem ég hengi flugu á þessi spjöld. Samt sem áður kíki ég reglulega á spjöldin mín, hristi hausinn svolítið og hugsa með mér; þvílíkt samansafn af ruslflugum. Eftir situr að ég á þarna nokkur víti til varnaðar og hef innan seilingar, það er aldrei að vita nema maður læri eitthvað af þessum mistökum ef maður kíkir annað slagið á þau.

Senda ábendingu

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *