Eftirvænting, tilhlökkun, spenna, smá vonbrigði, sáttur. Hvar annars staðar en í Veiðivötnum er hægt að upplifa þetta allt á einu bretti? Árlegri Veiðivatnaferð er sem sagt lokið og heim erum við veiðifélagarnir komnir; þreyttir, ánægðir og staðráðnir í að mæta aftur að ári með þessum frábæra hópi núverandi og fyrrverandi Skagamanna sem fóstraði okkur nú, þriðja árið í röð.
Við hófum leika á föstudaginn með því að renna í Snjóölduvatn og tókum þar 17 bleikjur til að grynnka aðeins á sístækkanir bleikjustofni vatnsins. Þess ber að geta að sára lítill hluti þessa afla hefði dugað upp í nös á ketti, svo smár var fiskurinn. Eftir að hafa átt við kóðið rétt vestan við Snjóöldupoll afréðum við að renna á nýjar slóðir. Eftir hressingu í Hermannsvík við Litlasjó héldum við áfram út að Litlutá (einmitt, maður reynir oft að veiða síðustu góðu veiðiferð aftur og aftur) en þegar ljóst var að enginn fiskur var í augnsýn eða tilkippilegur ákváðum við að renna alveg inn að Strigaskó. Ósköp varð þessi ferð okkar snautleg, ekki einn einasti fiskur á land úr Litlasjó, en við vorum meira en sátt og full væntinga fyrir næsta degi þegar við drógum sængur upp að höku og tókum til við að hrjóta í takt.

Laugardagur til lukku? Tja, hann byrjaði alveg þokkalega hjá öðru okkar í Stóra Hraunvatni undir Gaukshöfða þar sem ég landaði jómfrúarfiskinum mínum í norð-austan fræsing á móti öldunni. Skömmu síðar lönduðu nærstaddir veiðimenn einum mjög góðum og í bjartsýniskasti hélt ég að nú værum við dottinn í lukkupottinn, allt að gerast. En, nei það varð nú ekki og eftir að hafa næstum rifið handlegginn af mér í köstunum upp í vindinn ákváðum við að renna inn að Nyrsta Hraunvatni, en þar var einstaklega lítið um að vera þannig að við kíktum í Skeifuna (jómfrúarferð) en stoppuðum ekki lengi.
Eftir hádegishressingu renndum við aftur inn að Snjóöldu og komum okkur að þessu sinni fyrir á Bátseyrinni. Ekki varð sú ferð til fiskjar, en áfram héldum við og nú í leit að smá hvíld frá vindsperringi þannig að Kvíslarvatnsgígur varð fyrir valinu. Einstaklega fallegt vatn, en nokkuð slungið að því mér fannst. Á baka leiðinni stoppuðum við örlítið við í Kvíslarvatni þar sem frúin tók eina bleikju sem fer í harðfisk næsta haust. Einhver óeirð var þarna í okkur og við ákváðum að renna inn að Norsaravík við Litlasjó þar sem norðaustan vindurinn hamaðist við að fylla víkina af æti fyrir urriðann. Þarna virkaði víkin sem trekt sem fljótlega fylltist af flugu og ýmsu öðru góðgæti, en það gleymdist greinilega alveg að láta fiskinn vita af þessu. Eftir nokkrar tilraunir með ýmsar flugur og misgóð köst upp í vindinn gáfumst við upp og ákváðum að ljúka deginum í Langavatni að norðan þar sem maður gæti hvílt kasthöndina örlítið. Því miður lék Langavatnið ekki við okkur eins og í fyrra og árið þar á undan.

Sunnudagurinn gekk í garð og bar nafnið með rentu, glampandi sól og hitastigið tosaðist heldur betur upp. Við byrjuðum daginn í jómfrúarferð í Breiðavatn þar sem við gerðum okkur smá vonir um að bleikjan léti sjá sig í uppitökum eða klaki. Því miður virtist bleikjan hafa sofið yfir sig þennan morgun og úr Breiðavatni fórum við yfir í Ónefndavatn. Síðustu óstaðfestu fréttir herma að Vatnanafnanefnd hafi komið saman og talið ótækt að enn væri ónefnt vatn á Íslandi og því ákveðið að skýra það í höfuðið á nefndinni sjálfri. Hér eftir heitir vatnið víst Nefndavatn og nú má hver sem er trúa þessari (skrök) sögu ef hann vill. Mér finnst þetta vatn nokkuð skemmtilegt og í þessari jómfrúarferð sýndi fiskurinn sig með uppitökum, byltum og ýmsum látum úti á vatninu, en af gerviflugum var hann ekki ginkeyptur þannig að við renndum enn eitt skiptið inn að Snjóöldu og nú varð Snjóöldupollur fyrir valinu.
Eitthvað var nú sólskynsskapið farið að verða skýjað þegar við fórum úr Snjóölduvatni, enn og aftur með öngulinn í setvöðvanum. Til allrar lukku fyrir geð okkar veiðifélaganna hittum við ættingja konunnar sem voru nýkomin úr Krókspolli með nokkrar bleikjur í farteskinu þannig að við snérum okkar kvæði í kross og tókum stefnuna á pollinn. Jú, hann heitir pollur og varað hefur verið við að hann hafi samgang við Tungnaá og því gæti verið á öllu von í honum, en samgangur er ekki til staðar, í það minnsta um þessar mundir og fiskurinn gæti verið stærri, en það var virkilega þess virði að skjótast í pollinn og finna aðeins fyrir tökum svangrar bleikju eftir engar tökur síðustu vatna.
Á bakaleiðinni fengum við þá hugmynd að kanna stöðuna á Nýjavatni, svona fyrst við vorum að kynna okkur smábleikjunar. Mosanef varð fyrir valinu og eins og venjulega voru bleikjurnar sár-svangar og viljugar til töku. Við veiðifélagarnir komum okkur fyrir sitt hvoru megin við nefið, ekki nema 10 metrar á milli okkar og týndum upp nokkrar bleikjur. Það var kannski tilviljun, en það var verulegur munur á stærð þeirra bleikja sem veiddar voru austan við nefið og vestan. Að vestan voru bleikjurnar næstum því í þokkalegri stærð á meðan að allt sem veiddist að austan var í sardínustærð. E.t.v. er hægt að finna þokkalegar bleikjur inn á milli í vatninu, sé vel leitað.
Eftir Nýjavatn renndum við í Langavatnið sem enn brást okkur á hefðbundnum slóðum okkar þrátt fyrir að vatnið hafi verið að gefa öðrum veiðimönnum á öðrum stöðum betur síðustu daga. Þar sem þetta var landsleiksdagurinn mikli, var ákveðið að safnast saman á Lönguströnd við Litlasjó um kvöldið, veiða og fagna hverju marki. Eitthvað var minna um fögnuð að leikslokum og það sama má segja um veiðimennsku okkar veiðifélaganna. Ekki branda á land, þótt sett væri í væna fiska sitt hvoru megin við okkur.

Ekki var mánudagurinn síðri sunnudeginum hvað veðrið snerti. Við byrjuðum á morgunverði á eiðinu á milli Draugatanga og Höfða við Litlasjó. Smurt og gómsætt í gogg en ekki uggi kominn á stjá. Sneypt héldum við til baka og tókum stefnuna á Arnarpoll, enn eitt vatnið sem við höfðum ekki prófað. Það verður ekki af þessu vatnið skafið að umhverfið er dásamlegt og gaf ágætt skjól, reyndar svo mikið að flugan var mann alveg lifandi að éta. Og það var fleira sem vatnið færði mér, stærsti fiskur ferðarinnar kom á land og bíður nú eftir því að vera grafinn og sneiddur á brauð.
Eftir Arnarpoll gerðum við enn eina tilraun til að plata bleikjurnar í Langavatni til töku. Vatnið var eins og spegill, hitastigið með besta móti en ekki ein einasta uppitaka sjáanleg og aðeins eitt skvamp var það sem við höfðum upp úr krafsinu. Stundum eru veiðimenn einfaldlega sneiddir allri gæfu og það á við um okkur hjónin þegar kom að Langavatni í þessari ferð. Það gengur bara betur næst…..
Við vorum eiginlega svolítið slegin eftir síðasta rothögg Langavatns og leituðum því á náðir Suðurbotna Snjóölduvatns. Eitthvað hafa blessuð vötnin sammælst um að gera okkur gramt í geði, því ekki urðum við vör við fisk í Suðurbotnum heldur. Nú var farið að fjúka í flest skjól og ekki síst í geð undirritaðs. Átti þessi ferð að verða sú lélegasta? Við veiðifélagarnir sammæltust um að gera eina tilraun enn við Litlasjó og komum okkur því fyrir á mörkum Fyrstuvíkur og Hrauns. Ekki leið á löngu þar til frúin benti mér á að fiskur væri í æti á yfirborðinu, nú væri lag. Til að gera langa sögu stutta, þá gerðum við hjónin alveg prýðilega veiði þarna og fiskurinn var í miklu stuði þar sem hann úðaði í sig flugum og ýmsu góðgæti sem aldan bar þarna að landi. Samtals settum við í 26 fiska, 6 fengu líf og 3 sluppu. Það voru því 17 stk. sem fóru á aðgerðarborðið laust upp úr kl.23, lagðir á ís og eru nú komnir í frystinn hér heima. Það sannaðist þetta síðasta kvöld okkar að leiknum er ekki lokið fyrr en feita hrygnan hefur sungið sitt síðasta lag. Frábær endir á frábærri ferð okkar í Veiðivötn þetta árið.
Bleikjur í ferð | Bleikjur alls | Urriðar í ferð | Urriðar alls | Fj.ferða |
---|---|---|---|---|
15 / 17 | 21 / 27 | 7 / 15 | 8 / 19 | 9 / 11 |
Senda ábendingu