Flýtileiðir

Hvenær gerist bleikja ránfiskur?

Hversu margir hafa ekki heyrt sögur af stórum ránbleikjum í Þingvallavatni sem eigra þar um djúpin og ráðast á meðbræður sína af stofni bleikju? Lengi vel hvarflaði það að mér að þessar sögur væru hindurvitni ein, fiskurinn hefði vaxið meira í augum veiðimanna heldur en í vatninu sjálfu. En svo er nú víst ekki, þær finnast þarna þó ég sjálfur hafi aldrei náð einni einustu þeirra.

Það er aftur á móti þekkt að bleikja, rétt eins og urriði, leggist í afrán á eigin stofni og taki upp á því að stækka langt umfram meðbræður sína. Helst gerist þetta í þeim vötnum þar sem því háttar þannig til að ofsetningar gæti, stofninn stækkar umfram það sem framleiðni vatnsins annar og fæðuskorts fer að gæta. Þá skera ákveðnir einstaklingar sig úr, leggjast í afrán og stækka verulega umfram það sem fjöldin gerir.

Þar með er þó ekki sagt að þessi fiskur verði að ránbleikju. Hér er um venjulega bleikju að ræða sem bregður út af vananum, dregur sig til hlés og leitar á nýjar slóðir í vatninu þar sem hún getur dulist og sótt sér æti upp á grunnslóð þar sem 3-4 ára fiskur heldur gjarnan til. Nú set ég allan fyrirvara við þetta en ég hef hvergi séð niðurstöður rannsókna sem sína fram á annað en þessi ránhegðun bleikju sé bundin við einstaklinga sem bregða á það ráð að stunda afrán sér til framfærslu. Hin eiginlega ránbleikja, sú sem finnst á Þingvöllum, er aftur á móti afbrigði bleikju sem hefur þróast til þessa háttalags og sérhæft sig til þess.

Sílableikja eða afræningi?
Sílableikja eða afræningi?

Í þeim vötnum sem þannig háttar til að fjöldi bleikja leggst í afrán, má oft veiða 3 – 5 ára fisk sem er mun vænni en gengur og gerist í bleikjuvötnum. Þetta markast af því að ránfiskurinn heldur fjölda einstaklinga í skefjum, stundar náttúrulega grisjun og gefur þannig annarri bleikju sem lifir á skordýrum og kuðungum, jafnvel murtu sem lifir á svifi, meira svigrúm til að stækka. Færri fiskar, meira æti fyrir þá sem eftir eru.

2 svör við “Hvenær gerist bleikja ránfiskur?”

  1. Olafur Guðmundsson Avatar
    Olafur Guðmundsson

    Kanski ætti að blanda þessum stofni inn á t.d Veiðivatnasvæðið sunnan Tungnár. Þar hafa menn verið í stökustu vandræðum með ofsetin vötn.

    Líkar við

  2. Kristján Friðriksson Avatar

    Já, góð hugmynd. Nokkrum af Framvötnunum veitti ekkert af smá hjálp við stofnstærðarstjórnun bleikjunnar.

    Líkar við

Senda ábendingu

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *