Því miður hefur hefðin fyrir ferðum vestur í Hnappadal heldur látið undan síga síðustu ár. Sú var tíðin að farið var 3-4 á sumri í Hlíðarvatnið og veitt heil ósköp. Nokkur ár höfum við bræðurnir og spúsur okkar fylgst með og orðið vitni að gríðarlegum sveiflum í vatnshæð í Hnappadalnum og ég er ekki frá því að við séum að sjá afleiðingar verstu áranna núna. Mér finnst satt best að segja vanta 3ja og 4ra ára fisk í vatnið, þá er ég að tala um urriða. Það sem hópurinn veiddi núna um helgina var mest 2ja ára fiskur og svo mögulega einhverjir 5 ára sem náðust með löngum köstum út í vatnið (flot og maðkur).
Vatnsstaðan er mjög góð í vatninu, með því hæsta sem við höfum séð, en eitthvað hefur skordýralífið látið undan síga. Við skv. venju, veiddum fyrir landi Heggsstaða og gerðum alveg þokkalega veiði, 12 + 4 sleppt á flugu og félagar okkar vel á þriðja tug á flot og maðk á rúmum sólarhring. Við sáum til einhverra veiðimanna í Hallkellsstaðarhlíð á föstudagskvöldið en lítið sást til þeirra á laugardaginn, nema rétt fyrir hádegið. Einhverra varð ég var við á föstudagskvöldið inni við hraunið fyrir landi Hraunholts (Stangaveiðifélag Borgarness) en ég hef heyrt að stofninn þeim megin í vatninu sé í þokkalegu standi og mætti stunda það svæði meira.
Gleðifréttirnar eru að bleikjan í vatninu virðist vera að rífa sig upp úr leiðindum sem hafa hrjáð hana síðustu ár, ekki stór en í góðum holdum og falleg á að líta. Vonandi nær urriðinn sér á strik og étur á sig eitthvað hold það sem eftir lifir sumars. Annars fannst mér lítið um að vera í flæðarmálinu, ekkert síli og minna um flugupúpur heldur en oft áður.

Fyrir þá sem hyggjast renna í Hlíðarvatnið fyrir landi Heggsstaða, gætið ykkar á slóðanum niður að síðsta ræsinu áður en komið er að vatninu. Það er illa skorið eftir rigningar síðustu vikna og eins gott að vera á 4×4.
Veiðitölur ársins
| Bleikjur í ferð | Bleikjur alls | Urriðar í ferð | Urriðar alls | Fj.ferða |
|---|---|---|---|---|
| 3 / 0 | 16 / 11 | 8 / 4 | 13 / 16 | 15 / 20 |









Senda ábendingu