Flýtileiðir

Full af kátínu

Kátína
Kátína

Því hefur svo sem brugðið við að kaststíl veiðimanna sé lýst með orðum eins og ‚hann veifaði prikinu þarna fram og til baka, upp og niður‘. Í rituðu máli er óskaplega erfitt að gera sér grein fyrir hljómfalli orða og því auðvelt að yfirsjást galsi eða góðlátlegt grín í orðum sem þessum. Sjálfur hef ég notað öfgafullar lýsingar á eigin kaststíl og ekki legið á því að lýsa aðferðum mínum sem einhverju káfi út í loftið með flugustönginni. En, viti menn, það er alveg til í dæminu að veiða fluguna eins og maður viti bara ekkert hvernig eigi að halda á stönginni. Þetta snýst nánast um að hrista fluguna fram af toppinum og láta hana skoppa í loftinu, skittering upp á enska tungu. Aðferðin er helst notuð þegar menn veiða undan vindi eða léttri golu og felst í því að veiðimaðurinn heldur stönginni, aldrei þessu vant, töluvert hátt á lofti, nánast beint upp í loftið og leyfir flugunni að dansa til og frá í vindinum. Annars lagið er slakað á stönginni þannig að flugan sest á yfirborðið, rétt tyllir niður fótunum en tekur sig síða upp aftur og byrjar að flögra rétt við yfirborðið á ný. Auðvitað hafa menn hér í huga athafnir ýmissa flugna þegar þær verpa í yfirborð vatna eða eru ný klaktar og flögra heldur máttvana af stað eftir að hafa þurrkað vængina á yfirborðinu. Ætli ég gæti ekki betur að mér í framtíðinni þegar ég útmála eigin aulaskap, einhver gæti tekið upp á því að halda að ég sé einhver kátínu snillingur.

Senda ábendingu

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *