Flýtileiðir

Af hverju ekki fleyta henni?

Einn helsti kostur meðstreymisveiði er að það fyrsta sem silungurinn sér er flugan þín, hvorki taumurinn, línan né skuggi hennar. Annar kostur meðstreymis er að þú hefur miklu meira vald á hraða flugunnar heldur en andstreymis.

Ókostir? Já, margir og þar á meðal að til þess að forðast að fiskurinn sjái þig verður þú að standa töluvert langt ofan hans og því ert þú með nokkuð langa línu á milli þín og fisksins. Ef hann skildi nú glepjast af flugunni og þú þarft að bregðast við, geta viðbrögðin orðið heldur silalegri því straumurinn tekur nokkuð vel í línuna og hægir á öllum viðbrögðum þínum.

Svo er nú ekki auðvelt að stjórna því hvert flugan/línan fer þegar straumurinn hefur náð taki á henni, en þar kemur á móti að straumurinn ber nú yfirleitt eitthvað annað með sér heldur en flugulínu, nefnilega ætið sem fiskurinn er á eftir. Og til þess að flugan þín skeri sig eitthvað úr öllu öðru sem flýtur niður ánna getur verið gott að eiga nokkur trikk uppi í erminni. T.d. að hreyfa stangarendann til sitt hvorrar hliðar við strauminn. Vitandi það að fluga fylgir hreyfingum stangarinnar, ekki bara í lofti, þá færir flugan sig til sömu áttar og þú færir stangarendann og þannig fer flugan þín að skera sig aðeins úr öllu öðru sem flýtur þarna niður. Að vísu á þetta mest við um straum- og þurrflugur, síður um púpur og þyngdar flugur þar sem straumurinn hefur mikil áhrif á tauminn.

Ef þú ert síðan komin með fluguna vel niður eftir strauminum, e.t.v. alveg niður í lygnu eða á breiðu þá getur verið ráð að draga aðeins inn, færa stöngina til gagnstæðrar áttar og gefa aftur laust. Flugan færir sig þannig á aðeins til á breiðunni. Umfram allt, leyfðu flugunni að fara lygnuna alveg á enda, fiskurinn leynist oft þar sem hún endar undan straumi, hann hefur þá allan þann tíma í heiminum sem þarf til að koma auga á ætið áður en hann lætur til skarar skríða. Svo má ekki gleyma því að urriðinn heldur sig oft í grennd við stóra steina á botninum og við gætum þurft að leggja fluguna beggja vegna við hann áður en fiskurinn tekur.

Lækur hjalar....
Lækur hjalar….

Senda ábendingu

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *