Meira að segja jafn orðvar maður og ég nú er (hóst, hóst) getur varla komið orðum öðruvísi að skreppitúr okkar hjóna upp að Úlfljótsvatni í dag heldur en með orðunum; Við runnum á rassgatið með þennan veiðitúr og þá er ég ekki að tala um óeiginlega merkingu. Fyrst rann frúin fram af bakkanum með töluverðu skvampi en varð ekki meint af og ekki gat ég verið minni maður og fann mér skemmtilega flata, hallandi og hála hellu til að skella óæðri endanum niður á og renna mér þannig út í vatnið á bak- og afturendanum. Það var ekki laust við að mér yrði hugsað til filtsólanna á gömlu vöðlunum mínum á meðan vatnið seytlaði inn í ermarnar hjá mér þar sem ég lá þarna flatur í vatninu.
Og í sem skemmstum orðum, þá var þetta nú það helsta sem kom fyrir okkur í þessum veiðitúr. Ekki einn fiskur en fallegur haustdagur hefur verið greyptur í minni okkar og verður það fram að næsta vori, ef ekki lengur. Ekki nein vissa fyrir hendi um fleiri ferðir á þessu hausti eftir frábært veiðisumar. Hér eru sko engar barlómssögur um veiði undir meðallagi, vatnsskort eða þurrka. Sumarið búið að vera flott og við hjónin búin að prófa mörg ný vötn.
Veiðitölur ársins
| Bleikjur | Sleppt | Urriðar | Sleppt | Fj.ferða | Núllað |
|---|---|---|---|---|---|
| 73 / 35 | 14 | 28 / 33 | 4 | 36 | 15 |









Senda ábendingu