Ég á nú ýmislegt konunni minni að þakka og um helgina bættist enn eitt í sarpinn. Hefði hún ekki krækt í mjög þokkalega bleikju á laugardaginn uppi við Langavatn hefði þessi veiðiferð með réttu átt að merkjast sem fyrsta núllið eftir að veiðin fór af stað fyrir alvöru í sumar. Við sem sagt ákváðum ásamt Mosó-genginu að renna upp að Langavatni um helgina. Ég hafði það sterkt í huga að renna inn með austubakka vatnsins inn að botni, nokkuð sem mig hefur lengi langað til að gera en aldrei látið verða að.

Þar sem heldur gustaði á okkur á laugardaginn var ákveðið að leggja í leiðangur austur með vatninu. Okkur til nokkurrar furðu var einstaklega hátt í vatninu, jafnvel þótt hleypt hefði verið duglega úr því til að vökva laxveiðimenn niðri á Mýrum. Við höfðum við opnunina í júní rennt inn með vatninu en þá var slóðinn svo illa í sundur að við hurfum frá. Nú var annað uppi á teningnum, slóðinn í alveg þokkalegu standi þar sem hann lá á þurru, en þegar komið var 2/3 leiðarinnar inn í botn hvarf slóðinn svo gjörsamlega í vatnið að ég hvarf frá. Jæja, það gengur bara betur næst.
Í þessum leiðangri okkar stöldruðum við á mjög veiðilegu nesi fyrir miðju vatni þar sem frúin tók fisk helgarinnar, þann sem hirtur var. Ég setti að vísu í þokkalega bleikju, en eitthvað tók hún tæpt þannig að ég missti af henni áður en mér tókst að þreyta hana að einhverju ráði. Annars var lítið um fisk í ferðinni, þ.e. þeir sem tóku flugu voru litlir, svo litlir að öllum var sleppt og ekki færðir til bókar.
Ýmsar flugur voru áhugaverðar í augum titta, svo sem; Pheasant, Héraeyra, Hérinn og svo auðvitað Peacock í ýmsum útfærslum, helst sú sem gengur undir heitinu Frankenstein vegna óheyrilegrar stærðar (hnýttur á XXL #8 með margföldu undirlagi = feitur og fínn).
Veiðitölur ársins
| Bleikjur | Sleppt | Urriðar | Sleppt | Fj.ferða | Núllað |
|---|---|---|---|---|---|
| 107 | 14 | 61 | 4 | 31 | 11 |









Senda ábendingu