Hólmavatn 13. – 15. júlí

Eitthvað nýtt; Hólmavatn á Laxárdalsheiði, eitt nýju vatnanna á Veiðikortinu. Við vorum búinn að íhuga það nokkuð lengi að komast á Laxárdalsheiðina og á föstudaginn létum við loksins verða að því. Veðurspáin var nú e.t.v. ekki upp á það besta, en hún hefur nú svo sem áður sagt okkur á villigötum hvað varðar blíðu þannig að við létum slag standa. Vorum komin upp að vatni laus fyrir kvöldmat eftir nokkuð hnökrótta ferð upp frá Sólheimum. Leiðarlýsingar segja að „hann er ekki greiðfær fólksbílum, þó að hægt sé að aka þar á vel útbúnum og háum fjórhjóladrifsbílum.  Jepplingar og jeppar hentar þar að sjálfsgöðu best.“ Já, það má með sanni segja. Fyrstu brekkurnar upp á Sólheimaöxl eru ekki auðfarnar og eins og góður maður sagði; Það munar um lágadrifið en upp fórum við með fellihýsið og alles og komum okkur fyrir við vesturenda vatnsins.

Veðrið var alveg þokkalegt og við ákváðum að teygja aðeins úr taumunum án þess að verða vör við fisk það kvöldið. Ég játa nú að það voru farnar að renna á mig tvær grímur þegar maður heyrði í öðrum veiðmönnum í kvöldstillunni; „Þessi er bara feit og falleg“, „Nei, nei bara önnur flott“ o.s.frv. án þess að við yrðum vör við fisk, en svona getur þetta bara verið. Til þess að ergja hvorki sjálfan sig eða aðra, létum við gott heita á föstudaginn og komum okkur bara fyrir á vatnsbakkanum og nutum umhverfisins. Annars bar óvæntan gest að garði laus upp úr kl.23 þegar fjórhjóladrifs fjölskyldubíll staulaðist inn að vatninu og út úr honum sté ónefndur búðardrengur veiðivöruverslunar í Reykjavík með bak- og svefnpoka, til í slaginn við 2 klst. göngu inn á heiðina í leita að ónefndu vatni úti í buskanum. Örugglega skemmtileg útivera.

Afli helgarinnar

Laugardagurinn byrjaði líkt og veðurspáin hafði gert ráð fyrir, skýjað með einstaka dropum. Við gerðum okkur klár og löbbuðum inn með vatninu að norðvestan, frúin lét reyna á Peacock en ég Kibba. Við veiddum okkur að norðan og til baka að suðurbakkanum. Þegar upp var staðið hafði frúin krækt í tvo væna urriða, rétt um pundið og ég í einn. Ekki urðum við vör við einu einustu bleikju þótt aðrir hefðu tekið nokkrar kvöldið áður á svipuðum slóðum. Annars var haft eftir ónefndum manni í Búðardal að urriðinn héldi frekar til við útfallið, bleikjan í norðaustur horninu þar sem rennur í vatnið. Eitthvað fannst mér nú veiðireynsla annarra við vatnið afsanna þetta, en það er e.t.v. ekkert að marka því fiskurinn hefur jú sporð og notar hann til að færa sig um set.

 Eitthvað bætti í vind eftir hádegið en við létum slag standa og löbbuðum út með nesinu í vatninu að vestan. Ekki leið á löngu áður en frúin setti í enn einn vænan urriðan en ég varð að hafa aðeins meira fyrir mínum fyrsta. Á endanum tókst mér að finna eitthvert dýpi út frá öllum grynningunum og beitti stórum feitum Peacock fyrir mig og hugðist leyfa honum að sökkva vel. En til þess kom þó ekki því í fyrsta kasti virðist ég hafa lent beint á óðali urriðans því mér hafði nánast ekki gefist ráðrúm til að leggja línuna í grip til að draga inn þegar hrakalega var tekið í og hraustlega tekið út af hjólinu, dásamleg tilfinnining. Mér tókst að fanga fjóra mjög væna urriða á þessum slóðum þangað til ég var í raun saddur og við héldum heim í vagninn aftur enda farið að blása nokkuð hressilega af norðri.

Eitthvað hafði dagurinn reynt meira á okkur heldur en við gerðum okkur grein fyrir, því fljótlega eftir kvöldmat duttum við hjónin einfaldlega útaf á meðan við biðum eftir að vindinn lægði svo ekkert varð úr kvöldveiði hjá okkur. Sunnudagurinn byrjaði eins og laugardagurinn endaði, með töluverðum blæstri þannig að við ákváðum að taka vagnin niður en klæða okkur í vöðlur og labba aftur inn með vatninu að norðvestan og freista þess að særa út flugur undan vindi. Árangurinn varð sitt hvor urriðinn hjá okkur hjónum, báðir rétt um pundið, annar á Black Ghost og hin á Peacock. Raunar setti frúin í einn enn, en sleppti honum sökum smægðar.

Þegar hér var komið sögu hafði ónefndi búðarpilturinn snarast ofan af heiði, inn í bíl og horfið á braut og aðrir veiðimenn við vatnið sömuleiðis. Við tókum okkur saman og héldum af stað heim á leið, í þetta skiptið áfram upp Laxárdalsheiði og Holtavörðuheiði í átt til Reykjavíkur, en veiðinni var samt ekki lokið.

Veiðitölur ársins

Bleikjur Sleppt Urriðar Sleppt Fj.ferða Núllað
 75 10 46 4 25 11

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.