Við hjónin stóðumst ekki mátið í dag og skutumst rétt út fyrir bæjarmörkin, veðrið var eins gott og hugsast getur að hausti. Eitthvað hafði vatnið kólnað lítillega frá síðustu helgi, en lífsmörk voru samt sem áður meiri en þá; vorflugur í tugatali á vatninu og silungurinn að vaka og úða í sig fyrir veturinn. Ég tók tvo í tveimur köstum á orange Nobbler og frúin einn á Peacock, þokkalegir fiskar á bilinu 1 – 1/2 pund. Hængurinn var ekkert farinn að skrýðast riðbúningi og hryggnurnar voru langt frá hryggningu, þéttar en ókynþroska ef marka má hrognabrækurnar sem voru afskaplega litlar. Líkt og um síðust helgi virtist fæðan samanstanda af sílum og lirfum, eitthvað af kuðungi líka.