Flýtileiðir

Slíta eða vaða

Ég hef áður birt smá hugleiðingar um viðbragð okkar við töku, en hvenær vitum við að fiskurinn hefur tekið? Sagt er að við missum af c.a. 75% alls áhuga silungs vegna þess að við finnum ekki tökuna eða stimplum hana sem krak í botni eða grjóti og sleppum línunni lausri í stað þess að halda henni strekktri. Vanir veiðimenn telja sig auðveldlega greina munina á töku og kraki við steina, ég er greinilega bara byrjandi vegna þess að ég treysti mér sjaldnast til að greina þarna á milli. Oftar en ekki kasta ég aftur á sama stað, dreg inn með sömu aðferð og bíð þess að kraka í sama steininn aftur. Nú, ef það gerist ekki þá fyllist ég von um fisk, kasta enn og aftur og breyti jafnvel aðeins inndrættinum. Ef ég festi aftur á móti í steini þá er um tvennt að velja; slíta fluguhnútinn og hnýta nýjan taum og flugu eða reyna öll ráð til að losa eins og t.d. að vaða aðeins út og húkka úr steininum. Kostir og gallar; ef ég slít, þá tapa ég flugu (mér finnst gaman að hnýta flugur þannig að þetta er ekki stór ókostur), ef ég veð út þá á ég á hættu að styggja þann fisk sem mögulega er á milli mín og flugunnar. Fyrir mér er þetta einfalt; ef ég næ ekki að losa fluguna með einföldu móti þá slít ég frekar. Að veiða við botninn kallar á fórnir, ein og ein fluga ásamt nýjum taumaenda vegna þess að þegar við slítum, þá tognar yfirleitt á taumendanum og við verðum að skipta honum út ef við viljum ekki taka sénsinn á að sá stóri slíti.

Senda ábendingu

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *