Hingað til hef ég haldið mig við eina stöng í silunginn, 9′ 5/6 með WF6-F línu og komið púpunum mínum niður með því að þyngja þær eða bögglast við að nota sökktaum. Hef raunar alltaf átt í basli með köstin og sökktauminn þegar slynkurinn tekur öll völd og flugan slæst í línuna ef hún kemst þá á annað borð eitthvað fram úr 12 fetunum. En nú hef ég verið að fikra mig áfram með nýja stöng, eilítið léttari með flotlínu nr.5 og sökklínu nr.4. Þetta hefur kallað á nokkrar breytingar á kaststílnum, sérstaklega fyrir WF4-F/S3 línunni, víðari bugur og hægari köst. Sökklína nr.4 sem ætti að vera léttari heldur en flotlína nr.6 virkar bara hreint ekki þannig þegar maður kastar henni, en með ofangreindum breytingum á kaststílnum gengur mér samt betur en með WF6-F og sökktaum. Væntanlega hefur þetta eitthvað með samræmi línunnar og sökkendans að gera, nokkuð sem mér hefur reynst erfitt að ná fram með flotlínu og sökktaum. Ef þér hefur gengið illa með flotlínu og sökktaum, prófaðu þá framþunga, hægsökkvandi línu með allt að 12′ sökkenda í vatnaveiðina.









Senda ábendingu