Flýtileiðir

Að berja vatnið, endalaust

Þegar maður hefur orðið var við fisk, eða þykist í það minnsta vita af honum, en hann sýnir flugunni engan áhuga, þá vaknar spurningin; Hve oft á ég að reyna áður en ég skipti um flugu?

Til að byrja með sagði mjög lágróma rödd innra með mér; Fimm sinnum sem þýddi í raun að ég kastaði sömu flugunni í það minnsta 10 sinnum. Jafnan þýddi þetta að annar hvor okkar gafst upp og rann af hólmi, oftast fiskurinn. Með tíð og tíma hefur þessi rödd hækkað róminn verulega og í dag gargar hún á mig; Þrisvar sinnum sem er farið að þýða í raun og veru þrisvar. Reynslan hefur kennt mér að ef fiskurinn tekur ekki fluguna í þriðja skiptið sem mér tekst að leggja hana snyrtilega fyrir hann, þá eru mestar líkur á því að það eina sem takist er að hræða fiskinn endanlega frá mér.

En hvað svo? Í hvernig flugu á maður þá að skipta? Oftar en ekki verður smærri fluga fyrir valinu. Ef það dugar ekki til, þá tekur maður öfgafulla sveiflu í hina áttina, stærra kvikindi á hinum enda litrófsins, ljósa í stað dökkrar eða öfugt. Undantekningin frá þessu eru þó púpurnar. Í þeim held ég stærðinni svipaðri en læt þær skipta um ham hvað varðar lit og lögun.

Senda ábendingu

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *