

Þegar við hnýtum skottið á fluguna okkar verðum við að hafa nokkra hluti í huga áður en lagt er af stað. Fyrst af öllu verður lengd þess að vera í samræmi við aðra hluta flugunnar, þ.e.a.s. ef við erum að hnýta hefðbundna flugu, ekki ‘long tail’ eða langhala. Heppilegt viðmið er að skottið sé eilítið styttra heldur en vængurinn. Efnið í skottinu, hvort heldur það er hár eða fjaðrir, skal vera jafnt í endana og liggja samsíða. Annars er hætta á að við endum með grisjótt og úfið skott. Ef það er sveigja í efninu skal umfram allt láta sveigjuna vísa upp, ekki niður. Niðurdregnar flugur er síst til þess fallnar að glepja fisk. Þegar við festum skottið niður er rétt að gæta þess að ekki snúist upp á það eða lognist útaf til hliðanna. Best er að halda við efnið með því að klemma það ofan á öngulinn á milli þumals og vísifingurs, læsa efninu niður með þremur vafningum og jafnvel nota einn half-hitch til öryggis.