Flýtileiðir

Að verka væng – lokahnykkur

Síðasta hálfa mánuðinn hef ég rakið í nokkrum færslum ganginn í því að verka væng af rjúpu. Í síðustu færslu (á fimmta degi) var svo komið að ég hreinsaði vængina, skipti út grófu salti fyrir fínt og einsetti mér að leyfa þeim að þorna eins vel og mér var unnt. Kannski var ég bara heppinn eða íslenska rjúpan er svona þrifaleg, en ég varð á þessum hálfa mánuði ekki var við neina óværu í fiðrinu en til vonar og vara hef ég nú sett vængina í frystinn, ef ske kynni. Eftir einhverja daga í frystinum kem ég síðan til með að taka einn úr pokanum og hafa hjá mér við hnýtingarnar. Vel að merkja, ég rakst á ágætt ráð til að fyrirbyggja rakamyndun í þurrkuðum vængjum. Laumið eins og einum poka af rakakúlunum sem oft fylgja með raftækjum í pokann með fjöðrunum. Kannski einhver lumi á slíku núna eftir pakkaflóðið?

Niðurstaða: ég þori alveg að mæla með þessu fyrir þá sem tök hafa á. Það sem kom mér mest á óvart var hvað þetta tók stuttan tíma og hve einfalt mál þetta er. Næst væri ég alveg vís með að prófa eitthvað aðeins flóknara, t.d. að þurrka hnakka sem kallar á fláningu og aðeins meiri verkun á skinninu sjálfu.

Senda ábendingu

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *