Skagaheiði 25.- 28. júlí

Ölvesvatn, Fossvatn, Eiðsá

Það hefur verið á dagskránni í allt sumar að kíkja á Skagaheiðina, þ.e. austanverða og loksins varð að því að við komum okkur af stað. Renndum út úr bænum eftir kvöldmat á þriðjudag (24.júlí) með stefnuna á Blönduós og gistum þar eina nótt og héldum svo áfram út á Skaga um hádegið á miðvikudag.

Byrjum á veginum inn að Ölvesvatni; ef hann væri kvenkyns þá segði maður í besta falli að blessunin væri stórbeinótt og henni veitti ekki af því að fara í húðsnyrtingu. En yfir urð og grjót tipluðum við með fellihýsið sem var, þegar öllu var á botninn hvolft hreint ekkert óráð í stað þess að ‚njóta‘ gistingar í húsunum við vatnið.

Ölvesvatn

Veðrið á miðv.dag var alveg þokkalegt en greinilegt að viðvarandi norðlægar vindáttir höfðu plægt Ölvesvatnið nokkuð upp og lítið líf sjáanlegt á vatninu undan og við veiðihúsin. Samt tókst frúnni að tæla einn urriða á Peacock skammt þar frá sem lækurinn úr Heyvötnum ætti að renna í vatnið. Í trausti þess að næsti morgunn gæfi okkur færi á fiski var farið á nokkuð skynsamlegum tíma í bólið og vaknað með fyrra fallinu á fimmtudag. En, enginn er spámaður í sínu föðurlandi og ekki eru þeir mikið betri í Noregi (yr.no) því fimmtudagurinn rann upp með roki sem hvergi var að sjá í kortunum, vötnin gruggug og hvítfyssandi. Til að ganga ekki að bakteríunni alveg dauðri lagði ég land undir fót og gekk inn með vesturbakka Fossvatns og inn að Eiðsá. Áin sem er í raun bara lítill lækur sem rennur úr Ölvesvatni var þokkalega tær og ég ákvað að setja fulldressaða Watson‘s Fancy undir og reyna fyrir mér. Ekki vantaði áhugann og tökurnar því smáurriði var beinlínis vaðandi um alla á ósanna á milli. U.þ.b. miðja vegu yfir í Ölvesvatn greip einhver kergja mig og ég gafst ekki upp þrátt fyrir þrálátar tittatökur og ég hélt áfram að drekkja Watson‘s niður í álitlegan hyl. Þegar ég svo, að ég taldi, hafði sett í nokkuð öflugan gróður í hylnum og skilað af mér nokkrum óprenthæfum orðum lá við að ég hætti við allt saman. En, þegar ég tók nokkuð ákveðið í línuna var svarið ekki þunglamalegt gróðurtog heldur öflugur vöðvasamdráttur með nettum skammti af pirringi. Nú nú, það er þá einhver fiskur þarna og ég reisti stöngina svona til vonar og vara sem var kannski eins gott því upp úr hylnum og um 50 sm. í loft upp sveif þessi líka flotti urriði og sendi mér illt augnaráð. Holímólí varð mér að orði og setti mig í viðeigandi stellingar og tók til við að þreyta þennan bolta í þröngum farveginum. Ekki hægt um vik þar sem töluverður gróður var beggja vegna hyljar og ekki tók hann í mál að fara móti straumi inn á grynningar ofan hyljar. Eftir um 10 mín. gafst hann þó upp og ég náði honum upp á bakkann, glæsilegur hængur sem reyndist slétt 3 pund, massaður gutti sem greinilega leið ekki illa í öllu ætinu í ánni. Meðan þessu fór fram tók frúin fínan urriða í Ölvesvatni miðja vegu á milli útfallsins að Eiðsá og veiðihúsanna með Higa‘s SOS. Ekki varð okkur nú meira úr veiði á fimmtudaginn þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir frameftir kvöldi en undir miðnættið lagðist þétt og kuldaleg þoka yfir vatnið sem hefði e.t.v. átt að færa fisk nær landi en ekkert gerðist.

Fossvatn í bakgrunni

Föstudagurinn rann aftur á móti upp með þessari líka blíðu, uppitökum og miklu lífi rétt utan veiðihúsanna, nokkuð sem við höfðum saknað kvöldin á undan. Eins og stormsveipur var frúin komin í gallann og með þurrflugu að vopni tók hún 6 bleikjur og 1 urriða í blíðunni alveg fram yfir hádegið þegar botninn datt einfaldlega úr veiðinni. Væntanlega hafði vatnið þá náð efri mörkum hitastigs fyrir geðslag fisksins og hann þá hörfað út í kaldara vatn. Ekki gekk mér alveg eins vel og frúnni, ekki einn einasti fiskur á þurrflugu en tók eina bleikju á Black Zulu og aðra til á Higa‘s SOS. Eftir rólegheit fram eftir degi og stutt rölt niður með Fossá lögðum við aftur í hann eftir kvöldmat, frúin og Mosó deildin út með norðurbakkanum en ég ákvað að rölta hringinn í kringum Fossvatnið. Þrátt fyrir einstaklega fallegt veður og stillt vatn varð ég ekki var við neinn fisk í matstærð og kom því fisklaus heim í vagninn upp úr kl.23. Því miður var svipaða sögu að segja af Ölvesvatninu, það er bara eins og fiskurinn gæfi sig ekkert að kvöldi, ekki einu sinni inni við Lindirnar undir norðurbakkanum sem að sögn gefa oft vel í hita og eftir heita daga. Samt sem áður held ég að allir hafi verið nokkuð sáttir við daginn og fóru í bólið með von um annan eins dag að morgni.

Aflinn af Skagaheiði

Ekki átti föstudagurinn sér bróður hvað veðrið snerti, vindurinn hafði tekið sig upp aftur og vötnin fljót að litast á laugardagsmorgun. Samt sem áður reyndu allir fyrir sér í grennd við veiðihúsin og Fossvatnið án þess að einn einasti fiskur kæmi á land. Aðrir veiðimenn á staðnum gerðu aftur á móti nokkuð góða veiði með maðk sunnan við útfallið í Eiðsá fram undir hádegið en þá datt allur botn úr veiðinni eins og fyrri daga. Væntanlega hafa þrálátar norðlægar áttir hrakið fiskinn nokkuð sunnar í vatnið og hefði maður e.t.v. betur tekið sér göngutúr í þá áttina, svona eftirá að hyggja.

Almennt voru allir held ég, sáttir við ferðina þrátt fyrir leiðinda veður meirihluta tímanns. Við hjónin með samtals 12 fiska, alla væna og Mosó gengið með álíka.

Að lokum langar mig að minnast lauslega á lata veiðimenn sem borið hefur niður við Ölvesvatn ekki alls fyrir löngu. Það mega nú vera meiru dauðyflin sem ekki kveikja á þeim sóðaskap og ósóma sem felst í því að skilja hausa og beinagarða eftir rétt utan íverustaða við vatnið bara vegna þess að þeir hafa ekki rænu á að stinga upp torfu til að urða úrgang. Ég hef í gegnum tíðina gætt orðfæris á þessu bloggi mínu og hvatt menn auðmjúklega til virðingar við náttúru okkar fallega lands, en nú brestur mig einfaldlega kurteis orð til að lýsa þessum aumingjum sem breiða út orma og sóðaskap í nafni veiðimanna. Hafið skömm fyrir umgengnina.

Veiðitölur ársins

Bleikjur Sleppt Urriðar Sleppt Fj.ferða Núllað
 97 14 50 4 29 11

Ummæli

31.07.2012 – Sigurgeir Sigurpálsson: Sæll, Stórskemmtileg síða hjá þér. Ég fór líka á Skagaheiði fyrr í sumar og þar var ég í öðrum bústaðnum og fólk í hinum. Ég sá enga aðra á svæðinu en einn morguninn komum við niður að vatninu og þar hafði hitt fólkið fleygt hræjum af flottum fiskum í vatnið. Það hafði bara flakað þá og fleygt þeim út í vatnið eins og þeir muni bara hverfa á örskotsstundu. Hrikalega leiðinlegt að koma að vatninu svoleiðis.