Ég er ekkert nema áhugamaður (amatör) í ljósmyndun sem reynir að muna sem oftast eftir því að hafa vélina við höndina. Eins og gengur er útkoman oftar en ekki eitthvað sem fer strax í ruslafötuna þegar heim er komið og myndirnar hafa verið skoðaðar. En, til að ná árangri hef ég verið að fikra mig áfram, lesið mér til og farið á styttri námskeið.
Sá búnaður sem ég nota við myndatökur samanstendur annars vegar af Sony Alpha 380 DSLR myndavél með Sony SAL18-55, Minolta AF35-70 og Sigma 70-210 linsum og hins vegar GoPro HERO 4 Silver með tilheyrandi aukahlutum.
Ljósmyndasíður eins og VEFUR KELA og focalfish.com eru mér síðan hvatning til að vera duglegur að taka vélina með í veiðiferðir.
Aðrar áhugaverðar síður fyrir ljósmyndun, almennt og e.t.v. svolítið sérsniðnar að flugu- og veiðimyndun eru:
Hér að neðan hef ég safnað saman nokkrum punktum, kannski meira fyrir mig sjálfan heldur en aðra, en hver veit nema þeir nýtist fleiri byrjendum.
1. Að taka vélina af auto
Ágæt þumalputtaregla fyrir röð stillinga þegar myndavélin hefur verið tekin af allri sjálfvirkni getur verið; Hraði (shutter speed), ljósop (aperature), ljósnæmi (ISO)
2. Hraði (shutter speed)
Hraði er mældur í sekúndum eða hlutum úr sekúndu. Linsur þurfa misjafnan hraða til að tryggja óhreyfða mynd, þumalputtareglan segir að 1/20 úr sekúndu þurfi til að frysta mynd á 20mm og 1/80 sekúndu við 80mm.
3. Ljósop (aperature)
Ljósop er táknað með f/tölu. Því lægri sem talan er, því stærra er ljósopið og dýpt myndflatarins grynnri, þ.e. áherslan er í forgrunni myndarinnar. Því hærri sem talan er víkkar fókusinn og myndin nær því að vera öll í fókus.
f/3.5 > Stórt ljósop > fókus á forgrunni (Mynd A) f/22 > Lítið ljósop > fókus á öllum rammanum (Mynd B) Stærsta mögulega ljósop minnkar yfirleitt því meira sem aðdráttur er notaður t.d. f/3.5 við 28mm niður í f/5.6 við 80mm.
4. Ljósnæmi (ISO)
Ljósnæmi er mæld í ISO-tölum. ISO100 er yfirleitt lægsta mögulega ljósnæmi, og á nýrri vélum er mesta mögulega ljósnæmi ISO3200 eða meira. Meira ljósnæmi þýðir grófkornaðri mynd (noise) en jafnframt aukna möguleika á að taka myndir við léleg birtuskilyrði.
5. Samspil ljósops og hraða
Flestar myndavélar eru með fyrirfram ákveðnum stoppum fyrir ljósop:
f/1.4 ● f/2.0 ● f/2.8 ● f/3.5 ● f/4.0 ● f/5.6 ● f/8 ● f/11 ● f/16 ● f/22
Kerfið virkar þannig að hvert stopp hleypir helmingi minna ljósi inn á ljósnemann (sensorinn) heldur en næsta stopp á undan. Ef Mynd A væri tekin á f/3.5 1/15 og Mynd B með sama ljósopi (f/3.5) en á helmingi skemmri tíma 1/60 þá yrði Mynd B helmingi dekkri en Mynd A þar sem hraðinn minnkaði um eitt stopp.
Til að auðvelda samstillingu ljósops og hraða er skali lokahraðans samræmdur á flestum vélum: 8 ● 4 ● 2 ● 1 ● ½ ● ¼ ● 1/8 ● 1/15 ● 1/30 ● 1/60 ● 1/125 ● 1/250 ● 1/500● 1/1000 Margar nýrri vélar eru búnar s.k. EV skala á skjá og/eða í ramma sem lítur yfirleitt út eitthvað á þessa leið: -2 | | 1 | | 0 | | 1 | | 2+ Þessi skali segir til um birtustig myndarinnar og hvernig það breytist með tilliti til breytinga á ljósopi og/eða hraða. Sé bendillinn nær hægri hlið (+) verður myndin ljós(ari), en sé bendillinn nær vinstri hlið (-) verður hún dökk (dekkri).
Öfgafullt dæmi um samspil ljósops og hraða má sjá á myndunum hér að neðan. Ég byrjaði á að stilla ljósopið eins stórt og uppsetningin og linsan leyfði (f/3.5) í Mynd A. Til að jafna birtuna á EV skalanum við ISO200 varð ég að hafa hraðan 1/15 sek. Fyrir Mynd B þrengdi ég ljósopið eins og mér var unnt (f/22) og til að jafna birtuna við sama ISO varð ég að auka hraðan í 1/3 sek. Við þessa breytingu varð dýpt myndarinnar miklu meiri eins og sjá má á kili bókanna í bakgrunninum. Hvorki fókus né ISO var breytt á milli þessara tveggja mynda.

