Viva Bazaar

Hér er á ferðinni afbrigði af Viva flugu Victor Furse. Þetta afbrigði fann ég meðal áhugaverðra velskra vatnaveiðiflugna sem Bob Church tók saman árið 1993 og setti á bók. Flestar flugnanna fékk hann sendar frá kunningjum sínum, þar á meðal þessa frá Mr. Griffiths með þeim orðum að þessi útfærsla flugunnar skilur allar aðrar Viva flugur eftir og klikkir út með óskum um gott gengi til Bob, en segir það þó óþarfa ef hann sé með þessa flugu í farteskinu.

Annars má geta sér þess til að umræddur Griffiths hafi haft ágætan húmor, því enska orðið bazaar er yfirleitt haft um góðgerðabasar kirkna (e. church) og tileinkar þannig afbrigðið sjálfum Bob Church.

Þó ekki sé lengra liðið frá því þessi fluga koma á bók eins og raun ber vitni, þá gæti hnýturum reynst erfitt að finna nákvæmlega það efni sem Griffiths setur í lýsinguna. En, þá má alltaf fara eins nærri því með því hráefni sem finnst í dag, rétt eins og ég gerði þegar ég hnýtti fluguna.

Útfærsla: Mr. Griffiths
Öngull: #8 – #10 legglangur votfluguöngull, þyngdur
Þráður: svartur
Skott: fluor límónugrænt antron
Búkur: Lureflash black Frondz*
Vængur: svart Marabou
Haus: svartur, lakkaður

* hér neyddist ég til að nota heldur grófara efni heldur en Frontz efni Lureflash sem virðist ekki fáanlegt lengur.