© Small Stream Reflection

The jassid

Upprunalega hafði Vincent C. Mariano, höfundur þessarar flugu í huga að líkja eftir tifu (lat: Cicadellidae) þegar hann hannaði hana. Tifur finnast á Íslandi, m.a. Álmtifa en óvíst er hvort þær skipi stóran sess í fæðu íslenskra vatnafiska.

Það í sjálfu sér skiptir litlu máli, því þegar upp var staðið og Vince fór að nota þessa flugu vestan hafs upp úr 1950, aðallega í Pennsylvaniu, kom í ljós að í smærri útgáfum (#18 – #24) líkti hún ágætlega eftir nær öllum dökkum, nánast svörtum flugum sem setjast á eða koma upp í ferskvatni, rennandi og kyrru.

Á Írlandi hafa veiðimenn í áratugi notað þessa flugu með góðum árangri í ám og lækjum þar sem allar mögulegar tegundir bitmýs hafast við og því alveg eins víst að þessi fluga virkar hér heima. Flugan er nokkuð sérstök í útliti og eins og flestar flugur sem hnýttar eru með fjöðrum frumskógar hana (e: Jungle Cock) grípur hún strax athygli veiðimanna og fiska. Það sem gerir þessa flugu e.t.v. sérstaka er að það er aðeins notuð ein fjöður í væng hennar og hann hafður flatur þannig að hann virkar svolítið eins og tökuvari í augum þess sem veiðir.

Eins og fram kemur, þá er þessi fluga einna vinsælust í smærri stærðum og ætti því að höfða til unnenda lítilla flugna, sem aftur ættu að geta fundið ýmislegt fróðlegt í bók Vince Mariano, A Modern Dry Fly Code sem kom út árið 1950 og er af mörgum talin fyrsta testament í biblíu áhugamann um litlar (mjög litlar) flugur.

Hér skal það játað að myndin hér að ofan er ekki úr fórum FOS.IS og ástæðan er afar einföld, undirrituðum er ýmislegt annað betur lagið en hnýta þurrflugur og í þessu tilfelli var alveg sama hvaða útgáfu af The Jassid hann lagði fyrir sig, allar urðu þær frekar óásjálegar og flugunni hreint ekki til sóma. Til sönnunar á þessu eru hér tvær myndir af þeirri útgáfu sem var næst því að vera í lagi af öllum þeim sem ég lagði fyrir mig:

Ég vona að mér verði fyrirgefið þetta, en mig hefur lengi langað til að setja þessa flugu hér inn og því lét ég slag standa og notaði mynd úr fórum Small Stream Reflection sem einkennismynd.

Höfundur: Vincent C. Mariano
Öngull: þurrflugukrókur #18 – #24
Þráður: brúnn
Búkur: Grizzly Dry Fly Hackle
Vængur: frumskógarhanafjöður
Haus: brúnn

Það eru til þó nokkrar hnýtingarklippur af þessari flugu í mörgum mismunandi útfærslum, en sú sem Barry Ord Clarke sendi frá sér fyrir nokkrum árum síðan finnst mér vera ein sú besta sem ég hef séð, þó ekki fylgi hún upprunalegri uppskrift.

Create a website or blog at WordPress.com