Hnýtt af höfundinum Erni Hjálmarssyni.

Teppahreinsarinn

Eins og um margar aðrar flugur þá hefur þessi lúsiðni teppahreinsari verið fínpússaður örlítið frá því Örn Hjálmarsson setti hana fyrst saman fyrir nokkrum árum síðan. Upphaflega notaði Örn náttúrulegan fjöðurstaf í búk flugunnar sem nú hefur vikið fyrir gerviefni sem er töluvert meðfærilegra og endingarbetra.

Flugan sver sig í ætt buzzera og hefur reynst frábærlega þeim sem reynt hafað. Þær eru ófáar bleikjurnar sem hafa látið glepjast af þessari snjöllu flugu eða eins og einum kunninga FOS varð að orði þegar hann óskaði eftir uppskrift að flugunni; Ef þær vilja ekki Teppahreinsaranna, þá prófar maður bara Langskegg, það er lífsnauðsynlegt að nálgast uppskrifina að þessari flugu.

Eftir því sem undirritaður veit best, þá er nafn flugunnar skyndihugdetta Arnar eftir að góðvinur hans, Tómas Skúlason stóð í ströngu við að þrífa gólfið í Veiðiportinu eftir subbulegan viðskiptavin. Eitthvað leiddist Tomma verkið eða vildi komast í veiði og svaraði því símtali Arnar snaggaralega með orðunum; Teppahreinsarinn og það greip Örn á lofti og nefndi fluguna. Önnur skýring nafnsins barst undirrituðum til eyrna, þ.e. að flugan hafi hreinlega hreinsað upp allar bleikjur í einhverju vatni, en sú skýring er raunar úr lausu lofti gripin.

Höfundur: Örn Hjálmarsson
Öngull: Ahrex curved nymph eða sambærilegur (#10 – #16)
Þráður: hvítur
Búkur: Semperfli Perfect Quills Synthetic
Vænghús: brúnn tvinni
Kinnar: Stíffanir (Goose biots) ljósbrúnar / gular
Haus: brúnn

Hnýtt af höfundinum Erni Hjálmarssyni.

Hér að neðan má sjá Eið Kristjánsson taka snúning á Teppahreinsaranum í myndbandi frá árinu 2022. Eins og glöggir lesendur sjá, þá er flugan Eiðs nokkuð frábrugðin 2025 módeli hennar eins og Örn lét FOS í té, en lítill fugl laumaði því að FOS að Eiður hefði hug á að uppfæra myndbandið með nýjasta módeli flugunnar.