Sweep

FOS.IS hefur gert þetta áður og gerir nú aftur, sumar laxaflugur eru einfaldlega til þess fallnar að hnýta fyrir urriða og sumar meira að segja fyrir bleikju.

Þetta er gömul og góð laxafluga, ættuð frá Bretlandseyjum, það eitt er víst, en trúlega frá Skotlandi. Ekki ber alveg öllum heimildum saman um það hvort hún hafi upprunalega verið með fjaðurvæng eða hárvæng, en í þessu tilfelli skiptir það ekki máli, því útfærslan sem ég rakst á í boxi laxveiðimanns fyrir nokkrum árum síðan var með fjaðurvæng og ætluð urriða. Viðkomandi sagði mér að hún væri í miklu uppáhaldi í dimmu eða drungalegu veðri, eina flugan sem hann notaði þegar þannig bæri undir.

Mér fannst þessi útfærsla veiðileg um leið og ég sá hana, reyndi hana í nokkur skipti, fékk að vísu nokkurt nart, en enga alvöru töku. Þar sem ég er sannfærður um ágæti þessarar flugur, þá held ég áfram að setja hana undir þar til hún sannar sig endanlega með fiski.

Ef ég fer ekki með þeim mun meira fleipur, þá gekk þessi fluga, þ.e. laxaflugan undir heitinu President hér á árum áður vegna dálætis Ásgeirs Ásgeirssonar fyrrv. forseta á henni, hvort heldur með frumskógarhana í kinnum eða bláum King Fisher fjöðrum.

Höfundur: óþekktur
Öngull: legglangur straumflugukrókur #8 – #10
Þráður: 8/0 svartur
Skott: hálsfjaðrir úr gull fasana
Vöf: ávalt silfur tinsel
Búkur: svart flos
Vængur: svartar hanafjaðrir
Skegg: fanir úr svartri hanafjöður
Haus: svartur lakkaður

Ekkert myndband að þessu sinni, en í staðinn mynd af vinsælli útgáfu þessarar flugu með hárvæng fyrir lax:

Veistu ekki alveg hvar efnið er að finna sem þú sækist í? Prófaðu þá að leita á síðunni