
Soldier Palmer
Í öllum þeim bókum og greinum sem ég hef viðað að mér, þá finn ég ekki einn einasta staf um það hver sé höfundur þessarar flugu. Flugan er gömul, mjög gömul því hennar er getið, með einum eða öðrum hætti í bók Izaak Walton, The Complet Angler frá árinu 1653, þá undir nafninu Red Palmer. Þegar þessi fluga færði sig upp á skaftið í Skotlandi í upphafi 19. aldar var lítið um glys og glamúr í henni og þannig hnýttu menn hana langt fram á okkar daga.
Hver þessi Palmer var veit ég ekki, en skemmtilega sögu hef ég lesið um að flugan hafi verið nefnd eftir hermanni, Palmer nokkrum í Enska fótgönguliðinu og frá þessari flugu sé dreginn frasinn að Palmera búk á flugu með fjöður. Hvað er satt í þessu kýs ég að láta liggja á milli hluta, sagan er í það minnsta skemmtileg en kannski hafa litirnir í flugunni einfaldlega kveikt þessa sögu því fljótt á litið svipar henni til rauðklæddra hermanna Breska heimsveldisins og því gæti Soldier Palmer einfaldlega verið uppspuni eða jafnvel uppnefni Skota á þeim Bresku.
Hin síðari ár skaut flugunni eða öllu heldur afbrigði hennar aftur upp á sjónarssviðið og þá var hún kominn í glitrandi búning sem Dave McPhail klæddi hana í ásamt mörgum öðrum klassískum votflugum sem voru við það að gleymast. Eftir þessa yfirhalningu fékk þessi fluga, sem oft var talinn til ofur-flugna í vatnaveiði, heldur betur nýtt líf og nú má finna hana í s.k. Sparkler útgáfu í nær öllum veiðibúðum á Bretlandseyjum og víðar.
Höfundur: óþekktur
Öngull: Hefðbundin votfluguöngull 10 – 14
Þráður: Rauður 8/0 eða 70
Broddur: Rauður hnýtingarþráður eða rautt flos
Vöf: koparvír eða ávalt gult tinsel
Búkur: rauð ull (selshár)
Hringvaf (búkur): brún, gul eða rauðleit hænufjöður
Hringvaf (fremra): bekkjótt hanafjöður (indian cock) sem er trúlega síðari tíma viðbót
Haus: samlitur þræði
Hér að neðan má sjá Dave McPhail hnýta sem næst upprunalegu útgáfuna en þó með glitrandi ívafi í væng: