Oakham Orange

Þessi fluga lítur virkilega út fyrir að vera ein af gömlu klassísku votflugum Bretlandseyja, en því fer víðs fjarri. Hún kom fyrst fyrir almenningssjónir árið 1987 og var þá tiltölulega ný af nálinni. Bob Church, sem þá var landsliðseinvaldur Englendinga í fluguveiði, þekkti vel til höfundar hennar Stuart Billam og vissi nákvæmlega hvað flugan virkaði vel. Stuart þessi var kráareigandi í smábænum Stapleford í Nottingham og að mati Bob, meðal bestu áhugamannahnýtara þess tíma, auk þess að vera sérlega flinkur veiðimaður og átti fast sæti í landsliði Englands um árabil.

Það er því ef til vill engin furða að Bob valdi átta flugur eftir Stuart í bók sína Bob Church‘s Guide to Trout Flies sem fyrst kom út árið 1987. Raunar hafði Stuart kynnt þessa flugu nokkru fyrr fyrir félögum sínum í smábænum Oakham sem stendur við eitt stærsta stöðuvatn Englands, Rutlandvatn, þar sem hann reyndi fluguna vel og vandlega áður en hann opinberaði hana.

Uppskriftin er fengin úr umræddri bók Bob Church, myndin af flugunni er fengin að láni með leyfi höfundar.

Höfundur: Stuart Billam
Öngull: votfluguöngull #10 – #14
Þráður: rauður 8/0 eða 140
Skott: skær appelsínugular fanir úr hana
Vöf: ávalt silfur tinsel utan yfir appelsínugula hanafjöður (palmerað)
Búkur: flatt silfur tinsel
Kragi: ríkulega hringvafin hanafjöður
Haus: rauður, lakkaður

Eins og sjá má á myndinni er kraginn hafður mjög ríkulegur, þéttur og verklegur niður á öxl flugunnar þannig að hún veiði ofarlega í vatninu. Hér að neðan má sjá Matt O’Neal hjá Savage flies hnýta fluguna sem næst þessari uppskrift.