Mercury Black Beauty

Þegar maður sér flugu eins og þessa, þá verður manni ósjálfrátt hugsað til þess hve margir veiðimenn hafi mögulega hnoðað í sömu fluguna, hingað og þangað um heiminn, án þess að hafa minnstu hugmynd um tilveru hennar undir einhverju ákveðnu nafni. Það var árið 1992 sem Pat Dorsey og félagar gáfu þessari flugu hans þetta nafn eftir vel lukkaða veiðiferð þar sem hún lék stórt hlutverk.

Í bók Pat, Tying & Fishing Tailwater Flies segir hann frá þessari flugu og tilurð hennar, en lesa má á milli línanna að fluguna hafi hann notað í mörg ár áður en henni var gefið nafn. Þetta var einfaldlega lítil svört púpa sem hann átti alltaf, auðveld í hnýtingu, endingargóð og veiðin.

Sjálfur hnýtti ég þessa flugu fyrst fyrir fjölda ára síðan, trúlega eftir einhverri mynd á vefnum og hafði ekki hugmynd um sögu hennar eða heiti fyrr en ég las fyrrnefnda bók, en það má víða finna umfjöllun um þessa flugu. Ýmsir hafa orðað það sem svo að Pat eigi heiðurinn af því að gefa henni nafn og halda henni á lofti, án þess að fullyrða að hann sé höfundur hennar, sem er e.t.v. rétt þegar um jafn almenna og víðþekkta flugu er að ræða sem margir hafa hnýtt.

Flugan á sér skilgetna systur sem heitir einfaldlega Mercury Midge og ættarsvipurinn er nokkuð augljós eins og gefur að líta hér að neðan.

Höfundur:Pat Dorsey
Öngull: votfluguöngull #18 – #24
Þráður: svartur 8/0
Búkvöf: kopar- eða silfurvír
Búkur: þráðurinn
Kragi : svart dub, fíngert
Haus: glerperla

Hér má sjá stutt og hnitmiðað myndskeið þar sem Mercury Black Beauty verður til:

Til að slá tvær flugur í einu höggi má hér gefa á að líta þegar Tim Flagler hnýtir Mercury Midge:

Create a website or blog at WordPress.com