Marfló

Í stað þess að birta hér uppskrift að ákveðinni flugu með ákveðnu nafni, þá ætla ég að brjóta normið og setja fram það sem ég kýs að kalla eina af ótal aðferðum til að hnýta marfló. Aðferðir, hráefni og útfærslur marflóa eru nær óendanlegar og til að vera fullkomlega hreinskilinn, þá eru sumar marflær svo flóknar og útheimta sértæk hráefni að flesta rekur í strand á fyrstu mínútum hnýtingarinnar.

Flugan hér að ofan er hnýtt samkvæmt aðferð sem meistari Davie McPhail birti árið 2013. Þetta er sú aðferð sem ég hef notað frá upphafi þegar ég hnýti marfló. Hér set ég þann fyrirvara að þegar ég hnýti örsmáar marflær eða vatnakrabba, þá nota ég hefðbundin hnýtingarþráð í stað koparvírs til að klára fluguna og oftar en ekki þá sleppi ég fálmurunum og hef aðeins skott á flugunni, ef ég man þá eftir því.

Búkefnið getur verið allt frá ólituðum héra, yfir í eitthvað bleikt, appelsínugult, rautt, grænt, brúnt, svart eða drappað.

Eins og Davie McPhail er einum lagið þá er hann ekkert að flækja málið, beitir aðferð sem allir ættu að ná tökum á og heldur sig við fá hráefni sem flestir ættu að eiga. Sjálfur hef ég um árabil notað latexhanska sem ég klippti í renninga fyrir margt löngu síðan, einn hanski endist mér trúlega ævina og ég er ekkert kræsin á efnið í búkinn, hvað eina sem er í heppilegum lit getur orðið fyrir valinu.

Höfundur: Davie McPhail
Öngull: grupper í stærð #10 til #16
Hnýtingarþráður og vöf: mjúkur koparvír
Fálmarar og skott: stokkandarfjöður
Bak: plast renningur / plast foil
Búkur: héradub í æskilegum lit, gjarnan með íblönduðu glitefni

Create a website or blog at WordPress.com