Loch Ordie

Loch Ordie er eitt af fjölmörgum heiðarvötnum Skotlands og flest þeirra hafa eignast flugur sem skírðar eru í höfuðið á þeim. Loch Ordie er engin undantekning frá þessu og hér gefur að líta þá flugu. Upprunalega var þessi fluga hnýtt í afar einfaldri útgáfu, aðeins þrjár mislitar hænufjaðrir vafðar í hringvöfum fram eftir legg önguls og síðan svartur haus. Á síðari árum hafa sprottið fram ýmsar útgáfur og auknar af þessari flugu, sumar með búku undir hringvöfunum, jafnvel hreinræktaðar straumflugur með gylltum búk og skotti. Skemmtilegasta útfærslan sem ég hef séð er túpa sem sögð er hafa gefið ágætlega í ánni Tay sem rennur rétt vestan við Loch Ordie.

Til gamans má geta þess að skammt sunnan Loch Ordie er bærinn Dunkeld sem svo skemmtilega vill til að á sér nöfnu meðal flugna, falleg fluga og ein af frægari silungaflugum Skotlands, þó hún sé reyndar ensk að uppruna.

Höfundur: óþekktur
Öngull: Hefðbundin votfluguöngull 8 – 12
Þráður: Svartur 8/0 eða 70
Aftasta hringvaf: dökkbrún hænufjöður
Miðvaf: ljósbrún hænufjöður
Fremsta hringvaf: hvít hænufjöður
Haus: svartur

Hér fer Davie McPhail fimum höndum um þessa frábæru flugu, gætið vel að mjög góður útskýringum Davie í þessu myndbandi:

Create a website or blog at WordPress.com