Kopperbassen

Kopperbassen er ekki bara ein fluga, heldur samnefnari nokkurra flugna sem hnýttar eru í löndunum við Eystrasalt og helst notaðar í sjóbirting. Upprunalega Kobberbassen (e: The Copper Bully) kom fram árið 1996 og er eignuð Frank Jensen. Morten Kristiansen kom fram með Kopperlusen (e: The Copper Louse) á svipuðum tíma, en sú fluga er nokkuð flóknari í hnýtingu, en viðfangið er hið sama.

Það verður ekki um það villst að báðar þessar flugur eru eftirlíking marflóar en þegar hin ofur einfalda straumfluga The Fluff kom fram á sjónarsviðið rétt um 2010, þá tóku menn upp á því að hnýta slíka flugu úr sama hráefni og Kopperbassen og samheitið varð til.

Þessar flugur eru tiltölulega einfaldar í hnýtingu, fljóthnýttar og sérlega veiðnar. Hér heima eigum við Koparinn sem er ekki ósvipaður og hefur gert góða, sumir mundu segja mjög góða hluti í vatnaveiðinni á liðnum árum, þannig að vinsældir Kopperbassen hjá Eystrasalts sjóbirtingnum þurfa ekkert að koma á óvart.

Þar sem flugan þykir ekki einhöm og er til í mörgum mismunandi klæðum, þá er efnislistinn hér að neðan bundin við þær flugur sem ég hnýtti fyrir þessa umfjöllun og er alls ekki tæmandi yfir þær flugur sem ganga undir þessu nafni. Sumir hnýtarar virðast ekki hafa nokkra trú á einfaldleika þessara flugna og bæta ýmsum aukahlutum á hana, svo sem skél (baki), hala (skotti), fótum eða hringvöfum í stað þess að leyfa koparlituðu Angel Hair, Lite Brite eða Hareline Ice Dub að eiga sviðið.

Rækja / Púpa

Öngull: wide gape öngull #10 – #16
Þráður: rauður
Búkur: Hareline Ice Dub – Copper
Haus: rauður, lakkaður

Marfló / Rækja

Öngull: grupper #10 – #16
Þráður: 
brúnn 8/0
Vöf: 
koparvír
Bak: 
Hareline Scud Back – brúnt
Búkur: 
Hareline Ice Dub – Copper
Haus: brúnn, lakkaður

Hefðbundin púpa

Öngull: votfluguöngull #10 – #16
Þráður: svartur 8/0
Búkur: Hareline Ice Dub – Copper
Haus
: svartur, lakkaður

Straumfluga

Öngull: straumfluguöngull #6 – #10
Þráður: svartur 8/0
Búkur: svartur hnýtingarþráður, þakinn ljómandi UV lími
Vængur: Hareline Ice Dub – Copper
Haus: svartur, lakkaður

Að lokum gefur hér að líta smá kennslumyndband fyrir hnýtingu á Kopperbassen með kúlu:

Create a website or blog at WordPress.com