
Keeper
Flugan er vel þekkt og fjölmargir hnýtarar hafa hnýtt eitthvað í þessa áttina og veitt vel á. Það vita væntanlega færri að þessi fluga á ættir að rekja til Japan eða því sem næst. Þessi fluga í hefðbundinni Tenkara útfærslu hefur verið þekkt þar austur frá í áratugi ef ekki hundruð ára enda er efnisval hennar nægjanlega einfalt til að standast kröfurnar.
Upphafleg flugan var hnýtt á stóra króka m.v. púpu, allt upp í #2 XXL og þannig var hún kynnt til sögunnar vestur í Bandaríkjunum upp úr síðustu aldamótum. Að vísu var hún kynnt undir heitinu Sakakibara til heiðurs Masami Sakakibara sem er vel þekktur í Tenkara heiminum fyrir að hnýta sérlega stórar flugur.
Löngu áður en hún kom fram á sjónarsviðið vestanhafs voru veiðimenn á Írlandi með hefðbundna og almennt minni útgáfu þessarar flugur í sínum boxum og var hún talin eiguleg fluga (e: keeper) og það nafn hefur fest við hana.
Höfundur: óþekktur
Öngull: hefðbundin púpukrókur #10 – #16
Þráður: svartur UNI 8/0
Vöf: koparvír
Búkur: brúnt ullargarn
Hringvöf: brún hænufjöður
Haus: svartur, lakkaður