Indian Streamer

Ef eitthvað er að marka veraldarvefinn, þá kom þessi fluga fyrst fyrir almenningssjónir árið 1855 í vesturheimi. Hennar ku getið í bók Campbell Hardy Sporting Adventures in the New World þó mér hafi ekki tekist að finna það nákvæmlega í þeim tveimur bindum bókarinnar sem telja alls rúmlega 700 bls.

Það verður seint sagt um þessa flugu að hún sé falleg eða flókin, en hvorugt skiptir höfuðmáli svo lengi sem hún veiðir og að sögn gerir hún það.

Sagan segir að fyrstu kynslóðar innflytjandi í Nova Scotia hafi soðið hana saman, eða einhverja mjög svipaða, þegar hann sá sjógenginn lax og regnbogasilung elta sandsíli við ósa áa Nova Scotia. Eitthvað fannst honum útliti flugunnar víst svipa til hártísku frumbyggja Nova Scotia (Miꞌkmaq) á þessum tíma og gaf henni því nafnið Indian Streamer.

Höfundur: óþekktur
Öngull: legglangur straumfluguöngull #4 – #10
Þráður: Svartur 8/0 eða 70
Vöf: svartur vír
Búkur: hvítt ullargarn
Kambur: 4-5 peacock
Haus: svartur

Sjálfur hnýti ég þessa flugu úr UV ljómandi hvítu ullargarni og ég nota svart vinyl rip í stað vírs. Síðari tíma viðbót, eins og sjá má á myndbandinu hér að neðan, er að setja kvið á fluguna úr silfruðu tinsel.

Ívar í Flugsmiðjunni smellti líka í kennslumyndband um þessa flugu:

Create a website or blog at WordPress.com