GALLOUP‘S BARELY LEGAL

Ekki hef ég hugmynd um hvernig Kelly Galloup datt í hug að sameina hreyfanleika liðskiptrar flugu og eitt mest lifandi hnýtingarefni sem fyrirfinnst, marabou með þessum hætti, en eitt er víst, þessi fluga dillar sér einhver ósköp í vatninu þannig að fiskurinn beinlínis tryllist, að því er sagt er.

Flugan kom fyrst fyrir sjónir veiðimanna sem stunduðu Madison ánna vestur í Bandaríkjunum upp úr 1990 en fyrir sjónir almennings kom hún í bókinni Modern Streamers For Trophy Trout sem kom út árið 1999. Frá því hún kom fram hefur hún verið feikna vinsæl vestan hafs og hróður hennar borist víða, þó ég hafi ekki séð hana í þeim fluguboxum hér á landi sem ég hef fengið að kíkja í.

Höfundur flugunnar er vel þekktur í veiðisamfélaginu og margir hverjir halda því á lofti að Kelly Galloup sé einn að guðfeðrum nýtískulegra urriðaflugna. Meðal annarra þekktra flugna Kelly má nefna Sex Dungion og Mini Dungion sem báðar hafa birst í Febrúarflugum gegnum árin.

Flestar straumflugna Kelly eiga það sameiginlegt að vera mjög líflegar í vatni, jafnvel miklar um sig og töluvert langar og styðja þannig þekktar ráðleggingar Kelly sem sagði eitt sinn;

„Lærðu að láta fluguna þína kippast til og titra. Lærðu að breyta hraða inndráttarins en vera samt í fullkomnu sambandi við fluguna. Taktu tíu mínútur af veiðitímanum þínum, helst í upphafi hans, og náðu tökum á flugunni og línunni. Of margir stangveiðimenn kasta bara út og vona, halda að fiskur muni finna og taka flugu bara vegna þess að hún er stór og hún er þarna. Ekki gott.“

Frá eigin brjósti langar mig að geta þess að það er hreint ekki hlaupið að því að hnýta þessa flugu og það krefst töluverðrar þolinmæði, sem mögulega skortir eitthvað á þessum bæ. Ég hef þó hnýtt flugur með þessum hætti, þó ekki liðskipta og örlítið nettari og þær hafa gefið mér ágætlega.

Hér er uppskrift flugunnar sem Kelly hnýtir í myndbandinu hér að neðan, en þetta er ekki upprunaleg útgáfa hennar.

Höfundur: Kelly Galloup
Þráður: gelspunninn 100
Aftari hluti
Krókur: straumflugukrókur #4, miðlungs leggur
Skott og vængur: hvítt marabou að neðan, ólívugrænt að ofan
Búkur: perluhvítt Cactus chenille (miðlungs svert)
Fremri hluti
Krókur: straumflugukrókur #2, miðlungs leggur
Keiluhaus: stór svartur
Vængur: hvítt marabou að neðan, ólívugrænt að ofan
Búkur: perluhvítt Cactus chenille (miðlungs svert)
Kragi: Perluhvítt dub, gjarnan sk. Ice Dub

Þeir sem hafa þolinmæði til að hlusta Kelly og fylgjast með honum hnýta Bearly Legal í rúman hálftíma gætu haft áhuga á þessu myndbandi. Þá sem skortir þolinmæðina geta skrunað aðeins neðar og fylgst með Brian Wise hnýta sína útgáfu flugunnar á töluvert styttri tíma. Mæli samt með því að fylgjast vel með Kelly þegar hann leggur línurnar fyrir hnýtingu vængja og vefur búkefni flugunnar.