Duck Fly

Eftir því sem ég best veit þá er duck fly ekki til sem eitthvert ákveðið skordýr, en í daglegu tali hafa t.d. Írar notað þetta heiti yfir bitmý sem klekst snemmsumars. Það fór ekkert á milli mála við þetta fyrsta klak vorsins að endur fóru og fara enn, hamförum í átveislunni og þannig hefur þetta orð eða orðasamband fest sig í sessi þegar fyrstu mýflugurnar klekjast, sama hverrar tegundar þær eru.

Þegar kemur að veiðiflugum, þá er til ein fluga sem borið hefur þetta heiti í áratugi, ef ekki árhundruð. Sú er klassísk votfluga og sver sig svo til sinnar ættar að henni er oft á tíðum ruglað saman við aðrar betur þekktar eða vinsælli votflugur eins og Black Pennell eða Connemara Black, jafnvel Blae and Black. Allar hafa þessar flugur þó sín sérkenni sem skilur þær frá hvorri annarri, en ruglingurinn er þó skiljanlegur því allar hafa þær verið orðaðar við að vera eftirlíking svörtu mýflugunnar (enska: Black Midge skoska: Harlequin lat: Chironomus tentans).

Þessi klassíska fluga á ætti að rekja til Írlands og er ein þeirra sem ekki er eignuð neinum ákveðnum hnýtara. Það gæti einfaldlega átt sér þá skýringu að flugan er afar almenn útlits og trúlega hafa margir hnýtt hana eins eða sambærilega. Flugan nánast ber það með sér að vera hnýtt úr því sem hendi er næst og þá er ég ekki bara að tala um það sem er á hnýtingarborðinu, heldur almennt úti í náttúrunni.

Öngull: votflugu 10 – 14
Þráður: svartur 8/0
Skott: fanir úr hvítum hana eða hænu
Búkur: svört ull, vafin eða notuð sem dub
Skegg: svört hana eða hænufjöður
Vængur: grá-blá (gd: blae) stokkandafjöður
Haus: svartur, lakkaður

Create a website or blog at WordPress.com