Dagbjört

Fyrir um 20 árum síðan setti Jón Sigurðsson þessa flugu saman og fór nokkuð óhefðbundna leið. Í stað þess að setja hringvaf fyrir framan verklegan fjaðurvæng, þá hafði hann vængstubb fremst og hringvafið fyrir aftan hann. Þrátt fyrir þessi frábrigði minnir áferð og litaval flugunnar um margt á klassískar votflugur og ósjálfrátt dettur manni Alder í hug.

Eins og Jón hnýtti fluguna fyrir þá góðu bók, Veiðiflugur Íslands þá var búkur flugunnar tiltölulega stuttur og mikill um sig en smágerður þó miðað við stærð önguls. Lengi vel var ég ekki viss um hvað mér fannst um þessa flugu, en að sögn veiðir hún vel og þá jafnvel þegar allt annað bregst. Fluga þessi á sér heimavöll vestur á Fjörðum og þá helst í Sauðlauksdalsvatni en ég hef það fyrir satt að Jón hafi gert góða veiði á hana neðarlega í Varmá á sínum tíma og víðar.

Upprunalega var þessi fluga víst hnýtt á hefðbundinn votflugu- eða púpukrók, en sjálfum finnst mér hún álitlegri á wide gape emerger krók og þannig kemur hún fyrir sjónir hér að ofan. Ívar í Flugusmiðjunni hnýtir þessa flugu töluvert mjóslegnari eins og hún birtist í myndbandi hans hér að neðan með þeim orðum að þar sé á ferðinni upprunaleg útgáfa flugunnar. Það má segja að fluga þessi sé álitleg í öllum þeim útfærslum sem hnýturum dettur í hug að hnýta hana, sem er til marks um einfalda og góða flugu.

Höfundur: Jón Sigurðsson
Öngull: hefðbundinn votfluguöngull #10 – #14
Þráður: svartur
Búkvaf: svört hanafjöður
Búkur: svart flos
Vængstubbur: vængfjöður stokkandar
Haus: svartur, lakkaður

Eins og áður segir, þá hefur Flugusmiðjan verið dugleg að senda frá sér myndbönd með flugum Jóns Sigurðssonar og hér að neðan eru tveimur mismunandi útgáfum hennar gerð góð skil:

Create a website or blog at WordPress.com