
Cormorant
Cormorant, eða Skarfurinn er ekki flókin fluga og oft verið vísað til hennar sem ágætis fluga fyrir byrjendur (eða örlítið lengra komna) í hnýtingum. Það kemur ekki oft fyrir að ég rambi á þessa flugu í boxum veiðimanna hér á landi, en kemur þó fyrir. Raunar er það nú svo að heiti flugunnar er notað í dag sem nokkurs konar tegundaheiti á flugum, líkt og Buzzer sem nær yfir ótilgreindan fjölda flugna.
Lengi vel var þessi fluga eignuð Graham nokkrum Pearson, en hið rétta er víst að hann gaf henni bara nafnið eftir að hafa séð hana í boxi ónefnds þátttakanda í unglingariðli Alþjóðlegu ensku fluguveiðikeppninnar. Nafni höfundar hefur aldrei verið uppljóstrað, en að sögn hnýtti handhafi flugunnar hana sjálfur og Graham fannst mikið til einfaldleika hennar koma og ekki síst hve veiðin hún var. Upphaflega útgáfa flugunnar var eingöngu úr tveimur hráefnum; peacock og marabou fjöðrum en eins og margar aðrar flugur í gegnum tíðina hafa afbrigði hennar orðið óteljandi með tíð og tíma.
Sjálfur eignaðist ég minn fyrsta Skarf fyrir mörgum árum síðan og þá einfaldlega fyrir mistök. Ég gleymdi nefnilega að setja skegg á ótilgreinda flugu sem ég var að prófa og úr varð Cormorant, flóknara var það nú ekki. En eftir þetta hef ég notað og hnýtt nokkrar svona flugur og reynt að hafa þær í einfaldari kantinum og þannig hafa þær gefið mér einhverjar fiska.
Cormorant flugur má veiða á ýmsan máta og á öllu dýpi. Flugan sjálf er yfirleitt óþyngd, en það má vitaskuld veiða hana á flot-, hálfsökkvandi- eða sökklínu og þannig ná mismunandi dýpi. Ekki er óalgengt að hún sé veidd sem afleggjari og þá gjarnan með enn léttari efri flugu.
Höfundur: óþekktur
Öngull: Hefðbundin votfluguöngull 10 – 14
Þráður: Sami litur og ætlaður haus flugunnar
Broddur: gyllt kristal flash (seinni tíma viðbót)
Vöf: flatt tinsel, gjarnan holographic
Búkur: peacock
Vængur: yfirleitt svört marabou fjöður
Sú útgáfa flugunnar sem sjá má í þessu myndbroti kemur frá Mak: