Chris Basso’s Broken Back

Það eru víst engin takmörk fyrir því hvað hnýturum dettur í hug að gera til að vekja áhuga fisks á flugu. Það sem kveikir oftast hugmyndir að nýjum púpum er að fylgjast með lífríkinu, hvernig púpur og gyðlur haga sér. Það er einmitt það sem Chris Basso, sem eyðir mestum frítíma sínum við að ergja silunginn í Crawley uppistöðulóninu í Kaliforníu, gerði áður en hann kom fram með nokkuð sérstaka aðferð við fluguhnýtingar, frekar en ákveðna flugu.

Gamansagan segir að Chris hafi í ógáti keypt slatta af mjög lélegum krókum sem hann vildi gjarnan koma í lóg og því datt honum í hug að nýta aðeins augað og legginn af þeim. Mér skilst reyndar að hann hafi í raun verið að virða fyrir sér mökunarferli ákveðinnar tegundar af mýfluguætt þegar honum datt í hug að hengja ófullkomna flugu aftan í aðra, króklausa og þannig hafi Broken Back flugan orðið til.

Nú er það svo komið að veiðimenn keppast við að hnýta uppáhalds púpuna sína í þessari útgáfu í Kaliforníu og víðar. Ég hef það fyrir satt að nokkrir Svíar hafi tekið upp á þessu í sumar sem leið og gert fanta góða veiði í norðurhéruðum Svíþjóðar og Noregs. Sjálfur á ég þegar nokkur svona eintök í boxinu mínu, óreynd.

Þar sem ekki er um eiginlega flugu að ræða þá fylgir hér engin uppskrift, aðeins myndband þar sem þessari hnýtingaraðferð eru gerð þokkaleg skil:

Create a website or blog at WordPress.com