
Blóðormur
Ein af mörgum flugum sem verður eiginlega að teljast vera samheiti frekar en einhver ákveðin fluga. Útgáfur Blóðorms eru óteljandi, en þessa fann ég hjá Nýsjálenskum hnýtara að nafni Mike Wilkinson fyrir mörgum árum síðan og hef síðan þá átt hana í mínu boxi. Efnisvalið er kannski ekki mjög hefðbundið, en í þessu tilfelli verður að segjast að nota plaströr og vír er snjöll leið til að ná fram dýpt í orminn og ekki skemmir að það má alltaf breyta orminum með því að beygja vírinn.
Mike dundaði sér upphaflega við að hita plaströrið örlítið og klemma það saman um vírinn til að líkja sem best eftir hlutum ormsins, en ég hef látið það eiga sig og það virðist ekki koma að sök því flugan er ágætlega veiðin. Í stað upprunalegu CDC fjaðranna sem Mike notaði í skott og topp á hausinn, hef ég notað bæði hvítt og svart UV garn. Mér hefur einnig gefist vel að nota glært Ultra Lace og rauðan þráð eins og sést hér á mynd að neðan.
Ég á þessa flugu óþyngda og þyngda með því að bregða nokkrum vafninum af blýþræði eða tungsten undir þráðinn áður en ég hnýti toppi á hausinn.
Höfundur: Mike Wilkinson (sjá: Evolution of a Flyfisher)
Öngull: Grubber #14
Þráður: Svartur 12/0
Búkur: Fínn svartur vír þræddur tvöfaldur í gegnum rautt Veniard Ultra Lace Tubing (1 mm)
Skott og haus: Hvítt UV Ice Yarn fest í lykkju vírsins og sem toppur á haus flugunnar

Það hráefni sem hnýtarar velja sér í Blóðorm mjög fjölbreytt. Hér að neðan gefur að líta mörg vinsæl hráefni sem notuð eru í blóðorminn (frá vinstri til hægri); flos, hnýtingarþráður og squirmito, vinyl rip með peacock kraga og kúlu, hnýtingarþráður og rauður vír, tinsel með glerperlu. Allt eru þetta góðar og gildar útfærslur sem ég hef notað.





| Bleikja | Sjóbleikja | Urriði | Sjóbirtingur |
|---|---|---|---|
| 12 & 14 | 12 & 14 |
